Flogið á Krókinn á ný

Allir kátir með að áætlunarflug sé hafið á ný. Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs; Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis; Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar; Ásta B. Pálmadóttir, sveitarstjóri og Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi. Mynd: PF.
Allir kátir með að áætlunarflug sé hafið á ný. Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs; Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis; Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar; Ásta B. Pálmadóttir, sveitarstjóri og Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi. Mynd: PF.

Í dag lenti flugvél flugfélagsins Ernis á Sauðárkróki á ný eftir nokkurra ára hlé á áætlunarflugi þangað. Um tilraunaverkefni er að ræða í sex mánuði og ræðst framhaldið af eftirspurn flugfarþega. Fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir á Norðurlandi vestra hafa mörg hver tekið vel í að styrkja verkefnið með kaupum á miðum eða niðurgreiðslu til félagsmanna sinna.

Í tilefni dagsins bauð Isavia upp á kaffi og kökur og haldin voru ávörp. Hörður Guðmundsson, stofnandi flugfélagsins, sagði að ætíð væri reynt að bjóða upp á ódýrustu kjör á flugmiðum en vert væri að hafa í huga að margir kæmu að einu flugi. Nefndi hann að 20 manns í ýmsum störfum kæmu þar að, allt frá miðasölu, eftirliti, viðhaldi og að flugstjórn. Vonaðist hann til að áætlunarflugið til Sauðárkróks myndi ganga vel um ókomin ár.

Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar, bauð flugfélagið velkomið á Krókinn og sagðist vonast til þess að áætlunarflugið væri komið til að vera íbúum Skagafjarðar og nærsveita til hagsbóta og ekki síður til að opna fleiri hlið inn á svæðið m.t.t. ferðamennsku. Sagði hún það gríðarlega mikilvægt að fá þessa samgöngubót.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir