Friðarganga Árskóla fór fram í morgun

Hin árlega Friðarganga Árskóla fór fram í morgun en þá mynda nemendur skólans keðju á kirkjustígnum frá kirkju og upp á Nafir að ljósakrossinum. Ljósker er látið ganga milli nemendanna sem láta friðarkveðju fylgja með og þegar ljóskerið er komið að enda mannlegu keðjunnar er ljósið kveikt á krossinum við mikinn fögnuð viðstaddra. Formenn nemendafélags Árskóla hljóta þann heiður að kveikja á ljósakrossinum og í ár kom það í hlut Hildar Hebu Einarsdóttur og Arnars Freys Guðmundssonar.

Veðrið var með eindæmum gott að þessu sinni, hiti upp á 7-8 stig og sunnan andvara. Óskar Björnsson, skólastjóri, segir að veðrið hafi aldrei verið svo slæmt að fresta hafi þurft Friðargöngunni, einu sinni var beðið í 10 mínútur meðan hríðarél gekk yfir.

Blaðamaður man þó eftir svo miklu frosti að myndavélin fraus við myndatöku og voru færri myndir fyrir vikið af atburðinum.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá því í morgun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir