Fundað um hugsanlegt gagnaver á Blönduósi

Frá Blönduósi. Mynd:Northwest.is
Frá Blönduósi. Mynd:Northwest.is

Sveitarstjóri Blönduósbæjar fundaði nýlega með fulltrúum frá Borealis Data Center eins og kemur fram í skýrslu sveitarstjóra Blönduóss frá 13. júní sl. Fyrirtækið er á höttunum eftir hentugri staðsetningu fyrir gagnaver þar sem landrými er nægt og aðgengi að raforku gott. Fulltrúar fyrirtækisins hyggjast koma til Blönduóss í sumar og kanna aðstæður.

Lengi hefur verið rætt um atvinnuuppbyggingu á svæðinu og hefur umræðan um gagnaver oft skotið upp kollinum. Árið 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra svo hægt sé að nýta raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun á sem hagkvæmastan hátt og var þá fyrst og fremst horft til gagnavers á Blönduósi. Á sínum tíma var Blönduósbær meðal margra sveitarfélaga sem gengu til samstarfs við fyrirtæki sem voru áhugasöm um gagnaver. Lengst gengu viðræður við Greenstone en upp úr þeim slitnaði árið 2012.

Á Blönduósi er talinn ákjósanlegur staður fyrir gagnaver. Þar hefur 270 hektara land verið tekið frá í aðalskipulagi fyrir þess konar starfsemi auk þess em nálægðin við Blönduvirkjun er mikill kostur, öruggur orkuflutningur og um skamman veg að fara. Samgöngur eru greiðar og ennfremur er svæðið ákjósanlegt vegna lítillar hættu á náttúruvá, s.s. jarðskjálftum, eldgosum, snjóflóðum og skriðuföllum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir