Fundað um vegaúrbætur sem eru brýnar að mati heimamanna

Frá fundi um vegamál á vegum Markaðsstofu Norðurlands sem fór fram á Sauðárkróki. Ljósm./BÞ
Frá fundi um vegamál á vegum Markaðsstofu Norðurlands sem fór fram á Sauðárkróki. Ljósm./BÞ

Markaðsstofa Norðurlands er orðinn tengiliður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi við Vegagerðina. Af því tilefni var boðað til funda um vegamál um allt Norðurland. Þann 1. október voru fundir haldnir á  Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga og voru ferðaþjónustuaðilar og sveitarstjórnarfólk hvatt til að mæta og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Á hverjum fundi bar á góma vöntun á útskotum og að merkingar séu í lagi. Á fundinum á Sauðárkróki var aðkeyrsla og bílastæði við Glaumbæ nefnd og engan veginn sögð bera þann fjölda sem þangað sækir. Vegirnir um Hegranes, Reykjaströnd og að skíðasvæði Tindastóls voru einnig sagðir óboðlegir, þar þurfi að leggja bundið slitlag. Þá er einnig þörf á vetrarþjónustu á Reykjastrandaveg.

Rætt var um reiðvegi, sérstaklega í framsveitum Skagafjarðar, sem jafnvel voru sagðir stundum ónothæfir. Þörf er á að laga gatnamót á Þjóðvegi 1 við Varmahlíð, þar þurfi að koma fyrir hringtorgi. Vegir í Fljótum voru sagðir þurfa verulegra úrbóta, einnig voru hugmyndir um jarðgöng til Siglufjarðar ræddar. Nefndar voru úrbætur á Kjalvegi.

Kjalvegur, Þingeyravegur og vegurinn í gegnum Blönduós brýnustu verkefnin

Á fundinum á Blönduósi var uppbygging vegar yfir Kjöl einnig til umræðu. Eins að færa veglínu þar sem vegurinn liggur yfir stífluna við Kolku en þar verður ófært um leið og fer að snjóa.

Þau mál sem vógu hæst, auk Kjalvegar, voru Þingeyravegur, vegurinn í gegnum Blönduós og áfram norður. Vegurinn niður að Þingeyrum er sagður mjór, holóttur og ekki mikið viðhaldinn en þar jafnan er mikill ferðamannastraumur. Vegakaflinn gegnum Blönduós og norður að gatnamótum við Þverárfjall er orðinn gamall og hættulegur, eins er brúin yfir Blöndu orðin gömul og léleg.

Bílastæði vantar við Þrístapa, þar sem er mikið stoppað en ekkert pláss. Útbætur á Svínvetningabraut, Vatnsdalsvegi og Skagavegi voru einnig nefndar.

Mesta þörfin úrbótum á Vatnsnesvegi

Það sem brann heitast á fundarmönnum á Hvammstanga var Vatnsnesvegurinn en viðstaddir voru sammála um þar ríður mest á úrbótum. Byggja þurfti þann veg upp en gríðarlegur fjöldi ferðamanna fer þar um, um 250 bílar á dag, yfir hásumarið.

Einnig var rætt um Norðurbraut, gatnamótin við Laugarbakka, planið við Hvammstanga afleggjarann sem er of lítið. Talað var um brú yfir Norðlingafljót til þess að loka  leið sem liggur af heiðinni vestur og niður að Húsafelli.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir