Gamli bærinn á Sauðárkróki og Kvosin á Hofsósi verði verndarsvæði í byggð

Kvosin á Hofsósi. Mynd/KSE
Kvosin á Hofsósi. Mynd/KSE

Byggðarráð Sveitarfélagsins hefur sótt um um styrk til Minjastofnunar sem vinnur að því að undirbúa tillögur að sérstökum verndarsvæðum í byggð en auglýst var eftir umsóknum í júní sl. Í umsókn Sveitarfélagsins Skagafjarðar er áhersla lögð á gamla bæinn á Sauðárkróki og Kvosina á Hofsósi, sem fyrstu byggð innan þéttbýlis, sem meta beri í þessu sambandi og hafa samráð við íbúa um.

Í fundargerð byggðarráðs frá 7. júlí sl. kemur fram að á fjárlögum 2016 voru fjárheimildir húsafriðunarsjóðs auknar um 150 m.kr. til að gera sjóðnum kleift að styrkja vinnu sveitarfélaga við skipulagningu og þróun verndarsvæða í byggð í samræmi við ákvæði laga um verndarsvæði í byggð. Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd og skipulags- og byggingarnefnd var falið málið til umsagnar og mátu það svo að nauðsynlegt væri að hlúa að menningarsögulegu gildi húsa og byggðaheilda í Skagafirði. Byggðarráð tekur undir afstöðu nefndanna.  

„Ráðið metur það svo að það sé nauðsynlegt að hlúa að menningarsögulegu gildi húsa og byggðaheilda í Skagafirði og sótt verði um styrki til Minjastofnunar til að undirbúa tillögur að sérstökum verndarsvæðum í byggð, með áherslu á gamla bæinn á Sauðárkróki og Kvosina á Hofsósi sem fyrstu byggð innan þéttbýlis sem meta beri í þessu sambandi og hafa samráð við íbúa um. Að þeirri vinnu lokinni er kominn grundvöllur að fyrstu tillögugerð til forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð í Skagafirði og mörk þeirra,“ segir í fundargerð byggðarráðs frá 17. ágúst. 

Umsóknarfrestur var til 17. ágúst sl. Stefnt er að því að úthlutun liggi fyrir í síðasta lagi 12. september.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir