Guðmundur sigurvegari á Bikarsyrpu

Sigurvegari mótsins Guðmundur Sveinsson. Mynd: Taflfelag.is.
Sigurvegari mótsins Guðmundur Sveinsson. Mynd: Taflfelag.is.

Fjórða mótið af fimm í Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur fór fram um helgina þar sem um 30 stórefnilegir skákkrakkar  kepptu ýmist í opnum flokki eða stúlknaflokki. Í opna flokknum voru keppendur 25 talsins og hluti þeirra að spreyta sig í fyrsta sinn í Bikarsyrpunni ásamt þeim sem reyndari voru. Meðal keppenda var Skagfirðingurinn Guðmundur Peng Sveinsson og stóð hann uppi sem sigurvegari kvöldsins.

Á heimasíðu TR segir að eftir spennandi og jafna keppni hafi staðan fyrir lokaumferðina verið þannig að Guðmundur, sem hefur 1267 Elo stig, hafi verið einn efstur með 5,5 vinning en næstur með 4,5 vinning kom Daníel Ernir (1365 Elo stig). Fimm keppendur fylgdu með 4 vinninga og því ljóst að allt gat gerst í lokaumferðinni. Í henni stýrði Guðmundur svarta liðinu gegn Árna Ólafssyni (1224 Elo stig) og í tvísýnu endatafli lék Guðmundur af sér manni og gaf skákina í kjölfarið. Daníel Ernir gerði hinsvegar jafntefli við Gunnar Erik og því hélt Guðmundur efsta sætinu.

Guðmundur sigraði því með 5,5 vinning en í öðru sæti með 5 vinninga varð Árni, jafnmarga vinninga og Daníel Ernir sem hlaut 3. sætið.

Óhætt er að hvetja fólk til að fylgjast með Guðmundi Peng við skákborðið í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir