Gyrðir Elíasson hlaut Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2023
Ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni í gær en það var Gyrðir Elíasson sem hlaut verðlaunin fyrir ljóðabók ársins 2023 Elíasson fyrir ljóðabókatvennuna Dulstirni & Meðan glerið sefur. Rithöfundasamband Íslands stendur að verðlaununum ásamt Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.
Á síðu Landsbókasafns segir: „Gyrðir Elíasson fæddist í Reykjavík þann 4. apríl 1961. Hann er Austfirðingur að ætt og uppruna en ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í grunn- og framhaldsskóla. Um tíma bjó hann í Borgarnesi og á Akranesi, en seinna í Reykjavík, en hefur um árabil búið í Garði á Suðurnesjum.“
Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir: „Ljóðin í ljóðatvennu Gyrðis Elíassonar eru hljóðlát, hlédræg, ásækin og jafn áhrifamikil og skáldið sem yrkir þau. En áhrif höfundarverks Gyrðis á íslenskar bókmenntir eru óumdeild og um leið svo samofin hugsun okkar að við tökum ekki alltaf eftir þeim. Yrkisefnin koma víða að: draumar og veruleiki tvinnast saman á látlausan hátt og eins náttúran og hið manngerða, gleði og sorg, húmor og depurð, sveit og borg, himinn og mold. Myndmálið er skýrt, tært og heillandi líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi og í þessum tærleika býr margt sem er satt, fagurt og mikilvægt. Skáldið notar ljóðlistina til þess að afhjúpa fyrir lesandanum hið dularfulla í hversdeginum sem hann sækir innblástur í á einlægan og hógværan en um leið margslunginn hátt. Vangaveltur tilvistarlegs eðlis og leit að tilgangi lífsins eru höfundi hugleiknar og mikilvægar en þau aldagömlu spursmál ganga í sífellda endurnýjun lífdaga og koma lesandanum því stöðugt á óvart. Ljóðverkið Dulstirni og Meðan glerið sefur er dýrmæt áminning um að hið fagra býr í einfaldleikanum og er aldrei langt undan.“
Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar var opnuð af þessu tilefni. Nánar má lesa um Gyrði og Maístjörnuna á vef Landsbókasafns >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.