Haförninn Höfðingi floginn á braut

Höfðingja gefið frelsi. Myndirnar eru teknar í Miðfirði í gær af Róbert Daníel Jónssyni á Blönduósi.
Höfðingja gefið frelsi. Myndirnar eru teknar í Miðfirði í gær af Róbert Daníel Jónssyni á Blönduósi.

Eins og greint var frá á Feyki.is og í nýjasta tölublaði Feykis, fangaði bóndinn á Staðarbakka í Miðfirði, Þórarinn Rafnsson, haförn á laugardag í siðustu viku. Þar sem örninn virtist eitthvað lemstraður og átti erfitt með flug ákvað Þórarinn, í samráði við Höskuld B. Erlingsson, lögregluþjón og fuglaáhugamann á Blönduósi að fara með fuglinn, sem þeir nefndu Höfðingja, suður og hittu þeir þar fyrir Kristin H. Skarphéðinsson, fuglafræðing hjá Náttúrufræðistofnun, sem tók Höfðingja til aðhlynningar.

Örninn hefur sig  til flugs.

„Seinnipart þriðjudags fékk ég svo hringingu frá Kristni sem tjáði mér að Höfðingi væri orðinn sjálfum sér líkur eftir grútarhreinsun og gott yfirlæti fyrir sunnan en vildi fá far með mér norður, sem ég samþykkti. Við komum norður í gærkvöldi og fékk hann gistingu hjá mér í nótt og kjarngóðan kvöldverð. Í birtingu í morgun komu svo þeir félagar Höskuldur [B. Erlingsson] og Róbert Daníel Jónsson vopnaðir myndavélum til að aðstoða mig við að veita Höfðingja frelsi, sem hann þáði með þökkum og er okkur hulin ráðgáta hvernig svona stór skeppna getur hreyft sig svona hratt, upp fór hann og tók stefnuna fram dal. Þannig er nú það krakkar mínir, mögnuð upplifun sem ég gleymi seint og vil sérstaklega þakka þeim Höskuldi og Robba fyrir frábærar myndir og góða aðstoð,“ segir Þórarinn á Staðarbakka á Facebooksíðu sinni í gær.

Og fuglinn er floginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir