Hefjum nýjar hefðir og viðhöldum gömlum - Rakel Halldórsdóttir, starfsmaður Matís í viðtali

Rakel utan við Pakkhúsið á Hofsósi þar sem bændamarkaðurinn verður. Mynd: FE
Rakel utan við Pakkhúsið á Hofsósi þar sem bændamarkaðurinn verður. Mynd: FE

Í umfjöllun um námskeið Farskólans, Opin smiðja – Beint frá býli, í 8. tölublaði Feykis var greint frá því að til standi að opna matarmarkað í gamla pakkhúsinu á Hofsósi í sumar á vegum Matís. Umsjón með því verkefni hefur starfsmaður Matís sem nú er búsettur á Hofsósi, Rakel Halldórsdóttir sem stofnaði og rak verslunina Frú Lauguum árabil ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum. Feykir leit við hjá Rakel í Frændgarði, einu af húsum Vesturfarasetursins á Hofsósi, þar sem hún hefur skrifstofuaðstöðu.

Rakel lærði stjórnmálafræði við HÍ og í framhaldi af því lagði hún stund á nám í safnafræði við Harvard í Boston þar sem hún tók líka gráðu í Master of liberal arts með áherslu á sögu lista og arkitektúrs. Áður en Rakel fór til Boston hafði fjölskyldan búið eitt ár á Ítalíu þar sem eiginmaður hennar var við nám í tónsmíðum hjá Atla Ingólfssyni en Rakel var sjálf heima með lítið barn. Eftir þrjú ár í Boston lá leiðin aftur til Ítalíu þar sem fjölskyldan bjó úti í sveit, 15 km suður af Flórens. Þar vann maður Rakelar að doktorsverkefni sínu og hún lauk meistararitgerð um höggmyndir sem gerðar voru fyrir dómkirkjuna í Flórens.

Kynntist bændamörkuðum í Boston og Flórens

Á þessum árum vandist fjölskyldan því að fara á bændamarkaði, bæði á Ítalíu og í Boston, og kaupa vörur beint frá býli. „Ég var mikið að lesa mér til um næringu og fékk mikinn áhuga á að stunda heilbrigðan lífsstíl hvað varðar matarræði og borða hreint fæði. Ítalska matargerðarlistin gengur mikið út á að nota gott hráefni, bara einfalt en gott. Gott kjöt og gott grænmeti og svo matreiðir þú eitthvað úr því og það þarf ekki að vera flókið því hráefnið er svo gott. Þú þarft ekkert að vera að krydda það óþarflega til að fá bragð, heldur að láta hráefnið njóta sín. Nota ferskt og gott hráefni, og láta bragðið og litinn njóta sín. Það held ég að sé eitthvað sem er við bændamarkaði, maður fór á markaðina og varð einhvern veginn uppnuminn af því hvað allt var fallegt, grænmetið og ávextirnir, ostarnir og pylsurnar, allt svo girnilegt og freistandi. Það var svo gaman að fara og versla. Og það er svo stór hluti af þessu, að njóta þess frá upphafi að ná í matinn og setja hann á borðið. Hann er svo girnilegur og þig byrjar að dreyma um hvað þú ætlar að gera gott úr honum fyrir fjölskylduna,“ segir Rakel dreymin og blaðamaður hrífst með og fær vatn í munninn.

Rakel í Frændgarði þar sem hún hefur skrifstofuaðstöðu. Mynd:FE

Eftir dvölina á Ítalíu gerðist Rakel framkvæmdastjóri hjá Safnaráði og hjónin stofnuðu fyrirtækið Vín og matur sem flutti inn vín og ólífuolíu frá Ítalíu en fyrrverandi maður hennar er mikill vínáhugamaður. „Okkur langaði alltaf til þess að opna einhvers konar matarmarkað, í líkingu við það sem við höfðum kynnst þarna úti, en það var einhvern veginn ekki jarðvegur fyrir það þegar við komum heim um áramótin 2002-3. Svo þegar hrunið kom fann maður hvað aðstæður breyttust og allt í einu var kominn jarðvegur fyrir þetta, fólk vildi styðja íslenskt og styrkja framleiðsluna okkar hér og allt annar tónn var í samfélaginu. Við fundum húsnæði í hverfinu okkar sem hafði verið sjoppa áður og fengum það á mjög góðu verði. Við stukkum á það og fórum svo í Góða hirðinn og keyptum borð og stóla og það sem þurfti til og lögðum algjört lágmark í innréttingar en vildum hafa áhersluna á vöruna sem við vorum að bjóða. Við fórum svo hringferð um landið og mynduðum tengsl við bændur sem voru að gera eitthvað skemmtilegt og það gekk mjög vel. Svo opnuðum við bændamarkað með vörur beint frá býli út frá okkar hugmyndum um heilsu og heilbrigt matarræði. Það var ekki síst fyrir okkar eigin lífsstíl sem við ákváðum að opna Frú Laugu. Og þetta var aldrei gert í einhvers konar gróðaskyni, heldur af ástríðu og af því að okkur langaði til þess að þetta væri aðgengilegt, ekki síst fyrir okkur sjálf og börnin okkar. En svo þegar við opnuðum þá kom  í ljós að fjöldi fólks vildi nálgast svona vörur og hafði þótt það erfitt áður. Þetta fékk mjög góðar undirtektir.“ 

Með mörg verkefni á sinni könnu hjá Matís

Eftir að leiðir hjónanna skildu og þau hættu með verslunina hóf Rakel störf hjá Matís við verkefni tengd því sem hún var að gera í Frú Laugu. „Ég byrjaði á að gera gagnagrunn yfir alla frumframleiðslu í landinu. Matís vinnur út frá sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem voru sett til ársins 2030. Þau ganga út á að auka sjálfbærni allra samfélaga og grunnurinn að okkar samfélagi er frumframleiðslan sem gerir okkur kleift að vera sjálfbær. Það að hafa tök á því að ná utan um þetta í heildarskrá er náttúrulega svolítið sérstakt og kemur til af því að landið er lítið og fámennt. Ég er að vinna í þessum gagnagrunni núna og það er komin nokkur mynd á þetta. Hugmyndin er að opna vefsíðu þar sem þetta verður sett í myndrænt form þar sem þú hefur kort af landinu og getur séð dreifinguna á frumframleiðslunni, bæði það sem kemur af landi og úr sjó. Við vonumst til að geta gert þetta aðgengilegt almenningi í vor og þetta

Mynd frá Matís um Matarlandslagið.

verður grundvöllur stefnumótunar og hægt að nota fyrir alls kyns upplýsingamiðlun sem og fyrir ferðamennsku. Það verður vonandi hægt að þróa þetta þannig að hægt verði að nota grunninn sem eins konar fókus á ákveðin landsvæði, þú getir fengið sjónarhorn inn á ákveðið svæði og þá ertu með alla framleiðendur þar og nánari upplýsingar um framleiðslu þeirra. Til að mynda í tengslum við þennan matarmarkað sem við erum að hugsa um, að framleiðendur geti hugsanlega verið með eins konar sölusíðu, bara fyrir þetta svæði og boðið sína vöru þar, tilgreint hvað þeir eru með og jafnvel tekið við pöntunum.“

Annað verkefni sem Rakel vinnur að verður í upphafi unnið í tengslum við Grunnskólann austan Vatna og vonandi aðra skóla í Skagafirði og nefnist Krakkar kokka. Markmiðið með verkefninu er að auka skilning barnanna á hvað frumframleiðslan er mikilvægur hluti af sjálfbærninni og hvað það er mikilvægt að styðja sitt eigið nærsamfélag. Rakel sér fyrir sér að þetta verkefni verði unnið í skólunum, vonandi í haust, í samstarfi við heimilisfræðikennsluna. Í upphafi yrðu sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna kynnt fyrir krökkunum til að tengja þau inn í verkefnið. Börnin færu svo með heimilisfræðikennara til frumframleiðendanna og sæktu sér matvæli, t.d. niður að höfn að ná í fiskinn, heim til bóndans að sækja sér kjötvörur og grænmeti og tíni ber úti í náttúrunni. Í skólanum verður búið að setja upp matseðil og búið að ákveða hvaða afurðir þarf að nota og hvað eigi að matreiða úr þessu. Allt ferlið frá upphafi til enda verður skráð og tekið upp og búin til stutt heimildamynd sem verður svo aðgengileg þannig að krakkarnir geti kynnt sér vinnu hvers annars og séð hvað verið er að gera annars staðar á landinu.  Rakel vonast til að þarna verði til gagnagrunnur sem nýtist í kennslunni og endurspegli að einhverju leyti frumframleiðsluna á hverju svæði fyrir sig. 

Matarmarkaður í gömlu pakkhúsi

„Svo er það verkefni sem er mjög spennandi og var að fá styrk úr Framleiðnisjóði. Það er bændamarkaður í Pakkhúsinu hér á Hofsósi en það er náttúrulega sögufrægt hús og er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Ég undirritaði, f.h. Matís, samning við Þjóðminjasafnið um daginn um notkun hússins fyrir þennan bændamarkað. Pakkhúsið er talið vera frá 1777 og er menningarminjar. Þjóðminjasafnið er áhugasamt um það að húsinu, sem hefur ekki haft neitt skýrt hlutverk undanfarið hér í samfélaginu, skuli vera gefið hlutverk sem tengist því að lyfta fram menningunni og menningararfinum hér, sem matarmenningin er þáttur í. Þetta er eitt skref í átt að aukinni sjálfbærni. Þegar ég kom hingað fann ég að það sama á við hér og í Reykjavík. Framleiðslan er í túngarðinum hjá manni, hérna nokkur skref fyrir utan skrifstofuna mína eru fiskibátar en einhvern veginn eru afurðirnar ekki aðgengilegar. Þú þarft að fara í búðina til að

Glæra frá Matís um bændamarkað í gamla Pakkhúsinu á Hofsósi.

kaupa matinn, þú getur ekki náð í það sem er verið að framleiða rétt við túngarðinn hjá þér. Bændamarkaðurinn á að bæta úr þessu. Þar verður kominn vettvangur þar sem bændurnir koma sjálfir eða senda einhvern fyrir sig. Við sjáum fyrir okkur að það verði opið einu sinni í viku, á laugardögum sennilega, og jafnvel bara 2-3 tíma í senn þannig að það verður bara takmarkaður opnunartími en fólk veit af þessu og kemur og nær sér í það sem það vantar til heimilisins, fisk og kjöt, egg og grænmeti og allt það sem er í boði á þessu svæði sem ég hef þurft að vera að leita að í kaupfélaginu og oft ekki fundið,“ segir Rakel, enda ekki sjálfgefið að þær vörur sem neytendum stendur til boða að kaupa séu þær sem eru framleiddar í næsta nágrenni.

„Mér finnst þetta vera þáttur í því að auka stuðning samfélagsins við þessa eigin framleiðslu og einnig það að við gætum þá kynnt hana betur út á við fyrir ferðamönnunum og öllum sem koma á þetta svæði. Þá verður þetta eitt af því sem hefur aðdráttarafl fyrir staðinn og ferðamenn sækja í. Ferðamennirnir geta komið og fengið bæði matvörur héðan og jafnvel einhverjar unnar vörur, svo sem sultur og þurrkaða sveppi og ferskmeti og einnig verður handverk af svæðinu í boði. Þetta verður jafnframt leið til tekjuöflunar fyrir fólk sem er með einhverja smáframleiðslu og handverk. Matís mun ekki sjá um rekstur markaðarins, við erum einfaldlega að  aðstoða fólk við að sameinast um að koma þessu á og vonandi að halda því áfram þannig að þetta verði lyftistöng fyrir samfélagið. Mig langar til að sem flestir geti tekið þátt í þessu, t.d. Félag eldri borgara, að það sé einhvern veginn virkjað inn, fólk sem vinnur við handverk komi með sínar vörur, jafnvel að einhverjir hafi það hlutverk að miðla sögu staðarins og þess háttar. Og þegar við erum að segja sögu staðarins þá er svo mikilvægt að segja bara sannleikann, hafa bara raunverulegar heimildir, raunverulegar minjar og raunverulegar hefðir og draga fram, eins og þetta hús, þetta eru raunverulegar minjar og matarhefðin er raunveruleg hefð sem við erum að lyfta fram. Og það er það sem fólk vill og það sem við viljum halda í, við viljum miðla til barnanna okkar og koma áfram til komandi kynslóða. Það er að færast í vöxt að samfélög séu að verða meðvituð um þetta, hvað sagan er mikils virði til að byggja á og halda áfram með. Eldri borgarar búa yfir dýrmætum heimildum og reynslu hvað þetta varðar. Sem dæmi má nefna matarhefðir og vinnsluaðferðir sem eiga á hættu að leggjast hreinlega af. Nú er verið að safna heimildum um þær og varðveita þær og verkþekkingu sem þeim tengist, t.d. innan Slow food samtakanna. Þetta er mjög mikilvægt til framtíðar að við glötum ekki þessum hefðum og upplýsingum og aðferðum sem hafa  verið í gildi jafnvel í árþúsundir, að þetta sé eitthvað sem við varðveitum og höldum við og miðlum áfram,“ segir Rakel og auðséð er að hún hefur brennandi áhuga á viðfangsefninu.

Rakel utan við Frændgarð á Hofsósi þar sem hún skrifstofa hennar er. Mynd:FE

Verður þetta bara bundið við Skagafjörðinn eða erum við að tala um stærra svæði?

„Þetta verður bara Skagafjörðurinn núna, hann er eins konar tilraunasvæði til að byrja með. Ég kom hingað til að prófa ákveðin verkefni hér og sjá hvernig gengur. Svo vildi maður náttúrulega sjá þetta dreifast um landið. Þó svo að við höfum ekki þessa miklu hefð hér fyrir matarmarkaði, eins og er til dæmis á Ítalíu, þá er þetta bara fyrirbæri sem virkar og hefur sannað gildi sitt og hefur verið við lýði í árþúsundir. Og ég held að það muni aldrei breytast, það eru tækninýjungar, það eru nýjar leiðir,  það er hægt að panta matinn á netinu og fá hann sendan með drónum en það er mín upplifun að fólk vill geta notað skilningarvitin, horft á, séð fegurðina og snert á og fundið lyktina og farið og valið sér. Neysla matar hefst með valinu. Þetta er hluti af því að borða og það að borða er svo mikilvægur hluti af lífinu. Og ég held það sé svo mikilvægt að halda í þetta, þó svo að þróuninni sé að fleygja fram þá er þetta alltaf stór hluti lífsins og við viljum alltaf halda í eitthvað áþreifanlegt.“

En hvað með hluti eins og lög og reglugerðir sem mörgum þykir nú vera ansi erfið viðureignar?

„Já, við erum búin að heyra í heilbrigðiseftirlitinu hér og það er að skoða málið. Þetta virðist ekki þurfa að vera svo flókið í framkvæmd. Bændur sem eru með starfsleyfi til að vera með framleiðslu, þeir koma með afurðirnar sínar. Það verður ekkert matreitt á staðnum og þá er þetta miklu einfaldara í framkvæmd,“ segir Rakel og bætir við að það þurfi að koma fram á innihaldslýsingu ef varan inniheldur einhverja ofnæmisvalda og að varan sé framleidd í vottuðu eldhúsi, t.d. sultur og annað slíkt.

„Ég held þetta verði bara mjög skemmtilegt, eins og ég sagði, þó að það sé ekki sterk hefð fyrir þessu hér þá er þessi bændamarkaðshugmynd eitthvað sem virkar og fólk er að njóta um allan heim og skilar góðum árangri sem skref í átt að í átt að sjálfbærni, viðhaldi hefða og menningar. Eftir hundrað ár er svo hægt að segja, við erum búin að vera með bændamarkaði um landið í hundrað ár,“ segir Rakel bjartsýn að lokum.

/FE

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir