Hrói Höttur í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks - Leikdómur

Leikarar í framklappi eftir frumsýningu á Hróa hetti sl. föstudag. Mynd: PF.
Leikarar í framklappi eftir frumsýningu á Hróa hetti sl. föstudag. Mynd: PF.

Ég er sest fyrir miðju í salnum í Bifröst, tilbúin í það sem næsti einn og hálfi tíminn hefur upp á að bjóða. Áfangastaður er Skírisskógur, fararstjóri er Leikfélag Sauðárkróks og eftir að hafa rennt yfir leikaravalið í leikskránni virðist ég vera á leið í skemmtiferð af bestu sort! Inn salinn ráðast hermenn í leit að hetjunni okkar – Hróa hetti, sem hefur náð að móðga eiginkonu sýslumannsins og uppsker að sjálfsögðu stöðu réttdræps útlaga.

Því næst mætir á svið Hrói sjálfur, leikinn af Jóhannesi Friðriki Ingimundarsyni, á flótta undan hermönnunum og rekst á Litla Jón sem útskýrir fyrir honum að hann hafi unnið sér rétt til að kalla sig forsprakka útlaganna í Skírisskógi. Ég ætla nú ekki að fara að útlista leikfléttuna nánar, en einu get ég þó lofað – skemmtunin er stórkostleg allan tímann!

Ég varð strax spennt þegar ég frétti hver léki titilhlutverk sýningarinnar, enda er Jóhannes Friðrik frábær leikari og gerir allt vel sem hann tekur sér fyrir hendur í leiklistinni. Í þessu verki er hann öruggur og skemmtilegur á sviðinu og slær ekki feilnótu. Guðbrandur okkar Guðbrandsson er í hlutverki Litla Jóns og leikur sitt hlutverk af þeirri fagmennsku og snilld sem alltaf er hægt að treysta á þegar hann stígur á stokk. Systkinin Emelíana Lillý og Eysteinn Ívar eru ótrúlega skemmtileg í þessu verki. Emelíana er mjög sniðug á sviði – virðist hafa auga fyrir kómískum smáatriðum og er snjöll í að láta það vinna með sér. Eysteinn er einnig frábær gamanleikari og voru þau stórkostleg hvort á sinn hátt í hermannakvartettinum. Leikararnir stóðu sig að mestu leyti frábærlega og voru bæði Sigurlaug Lilja í hlutverki Maríon og Sigrún Hrönn í hlutverki fallegu frúarinnar mjög líflegar og skemmtilegar. Saga Sjöfn – í hlutverki Sýslumannsins – var frábær. Það er unun að fylgjast með henni á sviði, karakterinn gerir hún algjörlega að sínum og svipbrigði hennar og raddstyrkur eru dásamleg! Það að karlmannshlutverk sé leikið af kvenmanni skiptir engu máli þarna vegna þess að ekki er víst að nokkur annar hefði skilað hlutverkinu jafn skemmtilega af sér og hún gerði.

En að öllum öðrum ólöstuðum, þá kemur stjörnuleikur sýningarinnar frá senuþjófnum og nýliðanum Óskari Marteini Helgasyni! Í hlutverki Tóka munks fer hann algjörlega á kostum og hvort heldur sem er líkamstjáning eða hvernig hann ber rulluna fram, þá er hann algjörlega brilliant! Það er líkt og Örn Árnason og Laddi hafi eignast son saman, svo góð tök hefur hann á gamanleik. Vonandi er þetta verk bara hans fyrstu skref í leiklistinni.

Sviðsmyndin er skemmtilega minimalísk og að mestu leyti samanstendur hún af einum kassa á miðju sviðinu sem svo er snúið og breytt til að henta hverju atriði. Svona einföldun finnst mér alltaf mjög skemmtileg, enda er oft sem það getur hreinlega unnið á móti verkinu ef of mikið er að gerast í sviðsmyndinni sjálfri. Lýsingin er einnig skemmtileg, og eftirminnilegt er seinasta atriði fyrir hlé þar sem bardagaatriði fer fram einungis með sterkri baklýsingu og gefur manni þá tálsýn að maður sé hreinlega nánast að horfa á bíómynd. Tónlistin skipar skemmtilegan sess í verkinu, og það að nútíma tónlist sé notuð á móti miðaldayfirbragði verksins framkallar ákveðna tímaskekkju sem hristir á skemmtilegan hátt upp í verkinu.

Leikstjórn er í höndum Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur. Bryndís virðist hafa gott auga fyrir styrkleikum leikara sinna og kómískum smáatriðum. Leikararnir halda karakter allan tímann, hvort sem fókusinn er á þau eður ei, og fylla atriðin með smáatriðum sem eru kjöt á bein sýningarinnar í heild. Hvort sem það er hljóðlaust samtal á milli leikara á meðan athygli sýningargesta er á öðrum, litlar hreyfingar eða karakterákvarðanir sem jafnvel eru kannski ekki í handriti upphaflega, þá er ljóst að leikstjórinn er með puttann á púlsinum.

Hrói höttur í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks er einfaldlega sýning sem enginn má láta framhjá sér fara, og þó að verkið sé í grunninn barnaleikrit, þá er svo margt í því sem höfðar til fullorðinna líka svona fyrir utan það að leikritið er brjálæðislega fyndið! Ég mæli svo sannarlega með því að flestir leggi leið sína í Bifröst til að horfa á þessa uppfærslu.

Hrafnhildur Viðarsdóttir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir