Lionsklúbbarnir safna fyrir skynörvunarherbergi

Kótelettukvöld Lions verður haldið laugardaginn 29. apríl nk. í íþróttahúsinu á Sauðárkróki til fjáröflunar fyrir skynörvunarherbergi í Iðju, sem er dagþjónusta fyrir fatlaða á Sauðárkróki. Það eru klúbbarnir í Skagafirði; Lionsklúbbur Sauðárkróks, Lionsklúbbur Skagafjarðar, Lionsklúbburinn Höfði og Lionsklúbburinn Björk sem standa að veislunni sem er hluti að söfnun þeirra fyrir herberginu. Leitað hefur verið eftir stuðningi hjá fyrirtækjum og stofnunum í héraðinu við þetta góða málefni og gengið vel. Feykir hafði samband við Jónínu G. Gunnarsdóttur forstöðumanns Iðju og forvitnaðist um skynörvunarherbergi.

„Skynörvunarherbergi er rými þar sem unnið er t.d. með hugmyndafræði Snoezelen þar sem tilgangurinn er að örva skynfæri einstaklings, sjón, heyrn, lykt, bragð og snertingu í umhverfi sem er öruggt, friðsælt og afslappandi. Slík rými eru eins og nafnið gefur til kynna sérstaklega fyrir þá sem eiga við ýmiskonar skyntruflanir að stríða og/eða eru með skerta líkamsstarfssemi eða líkamsvitund.

Snoezelen er er hollensk skynörvunarleið eða ákveðin nálgun til örvunar skynfæra þar sem lögð er fyrst og fremst áhersla á vel skipulagt skynörvunarumhverfi. Snoezelen er samsett orð úr hollensku, dregið af tveimur orðum "snuffelen og dozelen" sem þýðir, að leita, þefa, hvílast og njóta. Markmiðið með skynörvunarherbergi er reynslan og upplifun einstaklingsins af ánægju og vellíðan gegnum skynfærin,“ segir Jónína og bætir við til útskýringar að einstaklingurinn upplifi á sínum eigin forsendum. Hún segir að þessi skynörvunarleið kalli í raun ekki á mikið annað en að starfsmaður eða þjálfari sé til staðar þar sem engin krafa sé um frammistöðu, aðeins að upplifa og um leið slaka á í notalegu en örvandi umhverfi.

  Herbergin eru höfð í þægilegum og mildum litum og helst er ekki mörgum litum blandað saman. T.d. ef möguleiki er á fleiri en einu herbergi þá á hvert sinn lit. „Þau geta verið ýmist dökk/svört eða ljós/hvít, allt eftir því hvaða áhrifum á að ná fram hjá einstaklingnum. Þau eru sveipuð ákveðinni dulúð og kyrrð. Einstaklingurinn nýtur hvíldar frá venjubundnu áreiti í þægilegu og rólegu andrúmslofti með dempaðri,mildri birtu og jafnvel róandi og seiðandi tónlist þ.e. slökunartónlist.“ Upplifun er einstaklingsbundin, segir Jónína. Getur verið slökun fyrir suma en örvun fyrir aðra. Hægt er að segja að hún gangi út á að vera „aktivur og passivur“ allt í senn.  Aðaláherslan er á umhverfið  þ.e. rýmið, húsgögnin, ýmsa ljósgjafa sem og hljóðgjafa svo eitthvað sé nefnt.

Hún segir hagnýtt gildi aðferðarinnar vera ótvírætt og nefnir nokkur dæmi:

• Veitir fjölþætta skynjunar upplifun
• Skapar rólegt og afslappandi umhverfi
• Veitir möguleika á tengslum, hlýju og nærveru
• Skynáreiti sem örvar og styrkir taugakerfið
• Getur minnkað sjálfsörvandi hegðun
• Einbeiting getur aukist
• Dregur úr spennu
• Vekur áhuga

 

Fjölþættur búnaður í skynörvunarherbergi

Ljóst er að búnaður í skynörvunarherbergi er fjölbreyttur og misflókinn og tæknilegur og nefnir Jónína margs konar hluti:

  • Ýmis konar ljósgjafar eru mikið notaðir.
  • Mismunandi ilmgjafar og bragðefni.
  • Ýmsir smáhlutir með mismunandi áferð og litum.
  • Skjávarpar eða myndvarpar þar sem notaðar eru myndir af dýrum eða landslagi, skýjum, stjörnum á himni til örvunar og eða slökunar.
  • Boltaböð þar sem einstaklingurinn getur legið í boltum eins og t.d. í boltalandi í Ikea, slakað á og fengið ýmsa örvun með því að hreyfa sig og leika með boltana. Ef ekki er kostur á slíkum böðum vegna t.d. plásleysisi má nota bala sem í eru boltar sem nota má til skynörvunar á höndum og eða fótum. Einnig eru til boltasængur með mismunandi stórum boltum, sem ýmist er hægt að liggja undir eða ofan á.
  • Súlur sem eru fylltar með vatni, hreyfing er á vatninu og við það myndast loftbólur í því. Ljósi er varpað á súlurnar og hægt er að breyta um liti. Einnig er hægt að setja litla plast bolta og fiska sem hreyfst eftir kraftinum á vatninu.
  • Speglar sem m.a. gefa margföldunaráhrif þannig að súlurnar sýnist margar, þó það sé bara ein í rýminu.
  • Ljósaþræðir sem má handleika, vefja utan um sig ofl. Hægt er að breyta um liti á þráðunum með ljósgjöfum.
  • Vatnsrúm sem veitir þægilega  tilfinningu eins og flotið er á vatni. Hátalarar geta verið undir dýnunni og hægt er að skynja með titiringi tónlist gegnum dýnuna því vatnið magnar upp hljóðið og einstaklingurinn finnur fyrir tónlistinni.
  • Hægindastóll.

 

 „Slík skynörvunarherbergi hafa reynst vel einstaklingum með alvarlega fötlun s.s. þroskahömlun, einhverfu, hreyfihömlun, daufblindu, sjónskerðingu og fólki með elliglöp og alsheimer. Herbergin henta börnum jafnt sem fullorðnum,“ segir Jónína og bætir við að þau séu ekki hugsuð til þess að sofa í heldur að njóta örvunar og eða slökunar og eiga góða stund með þjálfara sínum eða bara einn með sjálfum sér.                                                                                 „Þess má geta að við hjá félagsþjónustunni höfum hugsað þetta þannig að herbergið gæti nýst fleiri en bara notendum Iðju þegar fram líða stundir. Við erum að skoða þann möguleika að Skammtímavistun, leik og grunnskólar gætu hugsanlega nýtt sér herbergið fyrir þá einstaklinga sem þurfa á sérhæfðri skynörvun að halda.“

Aðspurð um kostnað segir Jónína það fara svolítið eftir því hversu langt verði gengið í að nýta hugmyndafræðina og allan þann búnað sem til er í heiminum fyrir slík rými. En góður grunnur getur verið 3-4 milljónir, þá er reiknað með grunnbúnaði, flutningskostnaði að utan og svo uppsetningu búnaðar. Lionsfélögin fjögur í Skagafirði ætla að fjármagna þetta glæsilega verkefni.

 

Skynörvunarherbergi víða að finna á landinu

Jónína segir að skynörvunarherbergi séu staðsett á nokkrum stöðum hér á landi, t.d. í Iðjunni á Siglufirði, Klettaskóla í Reykjavík, Hæfingarstöðinni Bæjarhrauni í Hafnarfirði, Skálatúni og Lyngási. Þetta eru þeir staðir sem farið var í heimsókn á, skoðað og velt fyrir sér möguleikum, kostum og göllum.

„Eftir að hafa skoðað mismunandi herbergi, aflað upplýsinga frá stöðunum svo og erlendis frá var komist að þeirri niðurstöðu að skynörvunarherbergi í Iðju við Sæmundarhlíð skuli vera hvítt/ljóst. Með því erum við að koma til móts við breiðari hóp notenda enda fengust þær upplýsingar í heimsóknunum að fleiri notendur velji hvíta rýmið. Við getum stjórnað áreitinu í hvítu/ljósu rými meira með ljósgjöfum sem og allskyns aukahlutum smáum sem stórum t.d. myndum, teppum, púðum o.s.frv. sem er markvisst valið inn miðað við þá örvun sem á að fara fram í hvert sinn í samræmi við hugmyndafræði Snoezelen,“ segir Jónína.

Þegar Jónína er spurð að því hvort hún vilji koma einhverju á framfæri í lokin, segist hún fyrir hönd notenda og starfsmanna Iðju- dagþjónustu þakka öllu því góða fólki sem stendur að Lionsfélögunum hér í Skagafirði fyrir þetta frábæra framtak þeirra og að leyfa þeim að njóta þess. „Það er alveg ljóst að fá slíkt skynörvunarherbergi breytir miklu fyrir starfsemina í heild og er heilmikil viðbót við þá þjónustu sem við veitum í dag. Við erum með vísir af skynörvun en það er ekkert í líkingu við Snoezelen nálgunina. Það að fá þennan búnað hjálpar okkur við að þróa skynörvunina betur og gera hana enn markvissari,“ segir Jónína í lokin.

Feykir þakkar Jónínu fyrir samtalið og vill í lokin skora á alla að munstra sig á Kótelettukvöld Lions sem haldið verður á laugardagskvöldið í upphafi Sæluviku Skagfirðinga.

Áður birst í 15. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir