Mamma mia í Varmahlíðarskóla

Frá sýningunni. Mynd: Íris Olga Lúðvíksdóttir
Frá sýningunni. Mynd: Íris Olga Lúðvíksdóttir

„Þetta var bara eins og á Stuðmannaballi í gamla daga“ heyrðist einn ánægður áhorfandinn segja í troðfullum Miðgarði nú fyrir skömmu þegar eldri bekkir Varmahlíðarskóla héldu sína árlegu árshátíð.

Hefur sá siður verið lengi við líði í skólanum að hefja skólastarf eldri nemenda á nýju ári með tveggja vikna undirbúningi þar sem hefðbundin tímasókn víkur fyrir stífum leikæfingum. Mörg þekkt leikverk hafa þannig verið tekin fyrir í gegnum tíðina og margir leiksigrar verið unnir. Að þessu sinni var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur en tekist á við hinn sívinsæla söngleik Mamma mía sem byggður er á ódauðlegri tónlist ABBA flokksins sænska. Einhverjum kann að þykja djarft að unglingar séu látin fikta við þetta stórstykki á sama tíma og það gengur mánuð eftir mánuð fyrir fullu Borgarleikhúsi sem kallað gæti á óheppilegan samanburð. En slíkur samanburður var þá bara atvinnuleikhúsinu í óhag.

Þessi gríðar fjölmenna sýning nemendanna var ekkert minna en stórsigur á alla mælikvarða. Að geta á tveimur vikum skilað hálfs annars tíma leik, söng og dansverki hnökralausu, fullu af gleði, góðri framsögn og framúrskarandi söng og leiksenum á í rauninni ekki að vera hægt. En undir styrkri leikstjórn Helgu Rósar Sigfúsdóttur og með frábærlega hagalegri sviðsmynd Írisar í Flatatungu og ekki síst einvala liði leikara tókst það nú samt. Þær eru enda engir nýgræðingar og hafa skilað mörgum verkum í höfn. Erfitt er að gera upp á milli leikara og í raun ósanngjarnt því þarna var staðfest það sem oft hefur sést  að hið ófyrirséða gerist. Hlédrægi unglingurinn blómstrar í einræðu, sá feimni syngur eins og engill og tímasetningar annars geirnegla fyndnu senuna. Með öðrum orðum getur sjálfstraust og virðing fyrir sjálfum sér og öðrum breyst til lífstíðar í einum vetfangi. Og þá hefur vel tekist til. Það hefur nefnilega verið stefna leikstjórans að  allir eru með með einum eða öðrum hætti og þá koma töfrarnir...

Greinilegt var að mikil eftirvænting var fyrir sýningunni því gestir komu víða að, innan og utan héraðs og sátu í gluggakistunum væri annað ekki í boði. Undirtektirnar voru líka stórkostlegar og svo miklar að leikritið var sýnt að nýju fyrir nær fullu húsi á fimmtudaginn 20. janúar.

Til hamingju Varmahlíðarskóli ....Mamma mia.......

Gunnar Rögnvaldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir