Nýtt vín á gömlum belgjum :: Leiðari Feykis
Sæluvika Skagfirðinga stendur nú sem hæst og er ýmislegt þar að finna af alls kyns afþreyingu og listviðburðum eins og lesa má um hér í blaðinu. Söngur, leikur, tónlist, bíó, myndlist, íþróttakappleikir og fjörugt mannlíf.
Það er mikill auður sem felst í því að hafa öflugt fólk sem gefur sér tíma til að standa fyrir hinum ýmsu verkefnum og viðburðum sem í boði eru og ekki sjálfgefið að svo sé. Skagfirðingar, sem komnir eru yfir miðjan aldur, muna kannski eftir því að deyfð var kominn í mannskapinn nokkru fyrir síðustu aldamót en með samhentu átaki var spýtt í lófana og þessari menningarviku komið í fyrra horf. Það sýnir að ekkert gerist ef enginn er til í tuskið.
Hinir sömu, sem komnir eru á aldur, minnast enn með hlýju hinna mörgu dansleikja sem haldnir voru í Bifröst, kvöld eftir kvöld, gleðskaparins og stemningarinnar sem skapaðist í Græna salnum. Það er liðin tíð og leitt til þess að hugsa enda ekki ballfært lengur í húsinu.
Endurbótum er nú nýlokið á samkomuhúsinu, sem brátt fer að nálgast hundrað ára aldurinn, og aðallega felast í bættu aðgengi hreyfihamlaðra með tilkomu hjólastólabrautar að inngangi og lyftu innan dyra upp á efri hæð og veitti ekki af.
Því miður lánaðist ekki að skipta um sæti í salnum eða öllu heldur rúmaðist það ekki innan fjármagnsrammans. Það hefði samt ekki þurft að kosta miklu til til að mála salinn og gera hann örlítið snyrtilegri.
Setning Sæluvikunnar fór fram í Safnahúsinu og stólum raðað upp í sal bókasafnsins og fór vel fram. Málverkasýning var opnuð þar sem myndir ungrar listakonu hanga á takmörkuðu plássi veggja húsnæðisins og varð mér hugsað til menningarhússins sem til stendur að byggja í framtíðinni og nýlega var greint frá að sé nokkurn veginn að komast á einhvers konar skrið. Alla vega sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, í svari sínu til Sigurjóns Þórðarsonar, sem þá sat á Alþingi, að hún hafi metnað til að bæta aðstöðu listsýninga og sviðslista á Sauðárkróki og að fjármögnun væri nánast lokið. Vonandi lifi ég það að njóta fjölbreyttrar listar í því húsi og jafnvel að fá að vera með í því að koma einhverjum viðburði á laggirnar.
Þrátt fyrir þrá mína eftir nýju menningarhúsi langar mig í lokin til að minnast á eitt elsta menningarhús landsins, Gúttó á Sauðárkróki, sem reist var árið 1897 og hýsti leiksýningar þangað til þær fluttust í Bifröst, sem byggt var 1925. Þar fer nú fram samsýning myndlistarfólks í Sólon, félagi myndlistarmanna í Skagafirði.
Þetta minnir mann svolítið á líkingar Jesús á borð við það að nýtt vín verði að setja á nýja belgi því ef nýtt vín er sett á gamla belgi sprengir vínið belgina og allt ónýtist. Nei, ég segi bara svona.
Ég hvet alla til að kíkja í heimsókn í gömlu belgina og að sjálfsögðu á alla aðra viðburði sem boðið er upp á í þeim yngri.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.