Pétur fer ekki fet

Pétur Rúnar og Stefán formaður takast í hendur eftir undirskrift leikmannasamnings. Aðsend mynd.
Pétur Rúnar og Stefán formaður takast í hendur eftir undirskrift leikmannasamnings. Aðsend mynd.

Samningar hafa tekist milli körfuboltadeildar Tindastóls og Péturs Rúnars Birgissonar að sá síðarnefndi leiki áfram með meistaraflokksliði félagsins á næstu leiktíð. Orðrómur hefur verið um að Pétur yfirgæfi herbúðir Stólanna en Stefán Jónsson formaður, sem kominn er í land eftir mánaðar úthald á sjó, lætur það ekki gerast á sinni vakt.

„Það kom aldrei til greina að Pétur færi. Pétur fer ekki fet,“ sagði Stefán ábúðarfullur eftir að skrifað hafði verið undir í stofunni á Sjávarborg en þar býr Björn Hansen stjórnarmaður og hægri hönd Stefáns.

„Ég held að þetta verði bara flottur vetur, erum sami kjarninn og bætum við okkur tveimur topp leikmönnum, þannig líst bara mjög vel á þetta,“ sagði Pétur er Feykir hafði samband við hann fyrr í dag. Aðspurður um hvort önnur lið hefðu reynt að krækja í hann sagði Pétur: „Það voru nokkur lið sem höfðu samband en ég ætla að bíða með að fara suður í skóla og þá kom í rauninni bara Tindastóll til greina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir