Pokastöðvar teknar til starfa í Skagafirði

Pokastöðvar hafa nú tekið til starfa á tveimur stöðum í Skagafirði, í KS Varmahlíð og KS Hofsósi. Eins og Feykir.is hefur áður greint frá tóku nokkrar konur í firðinum sig til í vetur og hófust handa við að sauma innkaupapoka til láns fyrir verslanir í Skagafirði. Afrakstur vetrarins eru þúsund pokar sem hægt verður að fá að láni í verslunum KS í Varmahlíð og á Hofsósi og einnig er ætlunin að opna pokastöð í versluninni Hlíðarkaup.
Verkefnið hófst fljótlega eftir áramót og hafa fjölmargar konur um allan fjörð lagt hönd á plóg við saumaskapinn. Gengur það út á að fólk getur fengið poka að láni í verslununum ef það gleymir sínum innkaupapoka heima og svo skilar það pokanum við fyrsta tækifæri á næstu pokastöð. Pokastöðvar eru starfræktar um allan heim og nú þegar hafa pokastöðvar tekið til starfa á nokkrum stöðum á Íslandi, sú fyrsta á Höfn í Hornafirði í fyrra.
Pokastöðin á Hofsósi var opnuð í byrjun mánaðarins og í Varmahlíð á fimmtudaginn var og er markmið þeirra að draga verulega úr notkun plastpoka. Svo skemmtilega vildi til að sama dag og pokastöðin var opnuð í Varmahlíð birtist lítil frétt í Fréttablaðinu þar sem fram kemur að undanfarna mánuði hefur dregið verulega úr notkun plastpoka í Íslandi, allt upp í tuttugu prósent í sumum verslunum.
Verkefnið hefur vakið talsverða athygli og var m.a. fjallað um það í Landanum á RÚV í gær og fyrir skömmu á N4.
Tengd frétt
Sauma innkaupapoka til láns
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.