Samningi um gamla bæinn í Glaumbæ sagt upp

Glaumbær á góðum degi.
Glaumbær á góðum degi.

Á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar sl. mánudag var tekið fyrir erindi frá Þjóðminjasafni Íslands þar sem samningi á milli safnsins og Byggðasafns Skagfirðinga er sagt upp. Jafnframt er í bréfinu óskað eftir viðræðum um nýjan samning þar sem m.a. yrði tekið tillit til varðveislu bæjarins og þess að hluti aðgangseyris að bænum renni til frekari viðhalds og varðveislu hans m.a. vegna stóraukins gestafjölda.

Í samtali við Feyki segir Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður Þjóðminjasafn Íslands  að til standi að endurnýja samstarfssamninginn, þ.e. að víkka samstarf Þjóðminjasafns og Byggðasafns Skagfirðinga, sem ná muni til fleiri húsa Þjóðminjasafns í Skagafirði.

„Það yrði í þágu  varðveislu húsanna í samhengi við aukið aðgengi gesta að friðuðum húsum Þjóðminjasafns á svæðinu og hefur verið í undirbúningi sl. ár. Í því skyni hefur samningi frá 2002 verið sagt upp, og er stefnt að því að undirrita nýjan samning fyrir voropnun 2018. Þjóðminjasafn hefur væntingar til samstarfsins enda samvinnan verið gefandi og í þágu vandaðrar safnastarfsemi í Skagafirði. Nýlega var undirritaður nýr samningur við Byggðasafn Skagfirðinga vegna Víðimýrarkirkju,“ segir Margrét sem telur rétt að einnig komi fram að samningi er ekki sagt upp vegna staðsetningu matarvagns við Glaumbæ enda rætt um endurnýjun samnings áður en matarvagn kom til tals.

Í fundargerð atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar kemur fram að nefndin fagni viðræðum um starfsemina í Glaumbæ, rekstur hennar og framtíðaruppbyggingu á svæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir