Smábarnadeild verður opnuð til bráðabirgða

Agnar H. Gunnarsson oddviti Akrahrepps tók til máls á opnum fundi um húsnæðismál leikskólans Birkilundar, sem fór fram í Menningarhúsinu Miðgarði í gærkvöldi. Ljósm./BÞ
Agnar H. Gunnarsson oddviti Akrahrepps tók til máls á opnum fundi um húsnæðismál leikskólans Birkilundar, sem fór fram í Menningarhúsinu Miðgarði í gærkvöldi. Ljósm./BÞ

Foreldrar barna á biðlista á leikskólanum Birkilundi boðuðu til opins fundar í Menningarhúsinu Miðgarði á mánudagskvöld. Margir komu á fundinn og sköpuðust góðar umræður um húsnæðisvanda leik- og grunnskólans í Varmahlíð. Leikskólastjóri Birkilundar sendi frá sér neyðarkall, sem birt var í Feyki, í síðustu viku og sagði starfsemina komna yfir þolmörk. 

Á fundinum voru samankomnir foreldrar barna í framsveitum Skagafjarðar, starfsmenn leik- og grunnskólans og fulltrúar frá sveitarstjórnum Akrahrepps og Svf. Skagafjarðar.

Til máls tók Unnur Gottsveinsdóttir sem lýsti áhyggjum foreldra af uppkominni stöðu. Steinunn Arnljótsdóttir leikskólastjóri gerði stöðu leikskólans góð skil og sagði frá því hvernig núverandi aðstaða barna og starfsfólks væri óviðunandi og í skjön við reglugerðir.

Næst tók til máls Agnar H. Gunnarsson oddviti Akrahrepps, sem einnig situr í samstarfsnefnd sveitarfélaganna sem hefur málið með höndum. Hann gerði grein fyrir þeim kostum sem hafa verið til umræðu, annars vegar að færa leikskólann upp í grunnskólann en áætlað er að sú framkvæmd kosti 360 milljónir. Hins vegar að byggja við núverandi leikskóla, sem er talið hljóða upp á 160 milljónir. Það er sú leið sem Agnar sagðist kjósa fremur og tók fram að fjárráð Akrahrepps leyfi ekki stærri fjárfestingu en hlutur hreppsins er 25% á móti Svf. Skagafirði, sem er með 75%. Í máli sínu gaf hann jafnframt það loforð að nefndin skildi leysa uppkomið vandamál, bæði finna bráðabirgðaúrræði og varanlega lausn á húsnæðismálum leikskólans í Varmahlíð.

Viðbygging leikskólans vænlegri kostur að mati flestra fundarmanna

Næst tók Gunnsteinn Björnsson sveitarstjórnarfulltrúi Svf. Skagafjarðar, sem einnig situr í samstarfsnefndinni, til máls. Hann greindi frá þeirra bráðabirgðalausn sem samstarfsnefndin vinnur að til að leysa þann brýna vanda sem skapast um mánaðarmótin þegar eina dagmóðirin í Varmahlíð lætur af störfum. Unnið er hörðum höndum að því að koma á fót svokallaðri smábarnadeild. Viðræður eru í gangi við eigendur Pósthússins í Varmahlíð um að fá þar inni. Einnig hefur Félagsheimilið Héðinsminni verið boðið fram ef hitt gengur ekki upp. Stefnt er að leysa þennan vanda fyrir mánaðarmót.

Varðandi framtíðarlausn skólamála í framsveitum Skagafjarðar sagðist Gunnsteinn vilja sameina leik- og grunnskólann til að auka samfellu skólastigana, það væri besti kosturinn til framtíðar. Tími væri kominn á viðhald á húsnæði Grunnskólans í Varmahlíð, víða væri verið að sameina skólastigin og hafi það gefist vel. Einnig sagði hann meiri stækkunarmöguleika í Varmahlíðaskóla en umhverfis leikskólann.

Orðið var síðan gefið laust. Margir stigu fram og urðu líflegar umræður og skoðanaskipti. Heyra mátti í málflutningi þeirra sem tóku til máls, foreldrum og starfsfólki skólanna, að þorra þeirra hugnast fremur að byggja við núverandi leikskóla en að færa hann í grunnskólann.

Skipuleggjendur fundarins vilja koma á framfæri þökkum til þeirra sem sóttu fundinn. „Foreldrar þakka þeim fulltrúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps sem komu en finnst jafnframt miður að enginn úr stærsta flokk Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Framsóknarflokknum, hafi séð sér fært að mæta,“ sagði Unnur Gottsveinsdóttir einn af skipuleggjendum fundarins í samtali við blaðamann.

Nánar verður fjallað um fundinn í Feyki vikunnar sem kemur út á fimmtudag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir