Spyr ráðherra hver staða Alexandersflugvallar á Sauðárkróki sé

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson.

Bjarni Jónsson varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi hefur sent fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um Alexandersflugvöll á Sauðárkróki. Hann segir í samtali við Feyki hafa áhyggjur af framtíð vallarins og notkun hans. M.a. hafi það gerst að keyra hafi þurft sjúklinga til Akureyrar til að koma í sjúkraflug. Það sé ekki boðlegt með flugvöll á svæðinu.

Spurningar Bjarna eru eftirfarandi:

1. Hver er staða Alexandersflugvallar á Sauðárkróki í grunnneti samgangna og var haft samráð við heimamenn þegar stjórnvöld tóku ákvörðun um breytingar á stöðu hans?

2. Hvernig er þjónustustig Alexandersflugvallar nú skilgreint og hvaða reglur og áætlanir gilda þar um viðhald, aðstöðu, búnað, flug- og lendingaröryggi og viðbragðstíma gagnvart almennum lendingum og sjúkraflugi?

3. Hefur öryggisbúnaður og nauðsynlegur búnaður vegna lendinga á Alexandersflugvelli verið skertur á undanförnum árum og ef svo er, hvernig og hvers vegna?

4. Hvert er viðhorf ráðherra til þess að Alexandersflugvöllur verði á ný tekinn í notkun sem virkur flugvöllur í samgönguneti landsmanna og hvernig telur ráðherra að heppilegast væri að stuðla að því?

5. Hversu mörg sjúkraflug hafa farið um Alexandersflugvöll á undanförnum fjórum árum? Svar óskast sundurliðað eftir mánuðum og árum.

6. Hversu oft á undanförnum fjórum árum var ekki unnt að nýta Alexandersflugvöll til sjúkraflugs, hverjar voru ástæður þess og hvert er viðhorf ráðherra til öryggishlutverks flugvallarins fyrir íbúa Sauðárkróks og nágrannabyggða?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir