Tímabundið leyfi fyrir matarvagn við Glaumbæjarsafn samþykkt
Á Facebooksíðu Byggðasafns Skagfirðinga segir að matarvagn í Glaumbæ sé sannarlega ekki efstur á óskalista starfsmanna safnsins. „Allt sem tefur fyrir umferð á alltof litlu bílastæði gerir erfitt ástand verra og með fullri virðingu fyrir matarvögnum að þá bæta þeir ekki minjagildi þjóðargersema á borð við gamla bæinn í Glaumbæ.“ Tilefni þessa skrifa er að skipulags- og byggingarnefnd Svf. Skagafjarðar samþykkti að veita tímabundið stöðuleyfi, frá 1. maí til 1. október 2017, fyrir söluvagni við hlið salernishúss sem er á staðnum.
Þrátt fyrir að í umsögn Guðmundar L. Hafsteinssonar fh. Þjóðminjasafns Íslands komi fram að Þjóðminjasafnið hafni því að setja niður matarvagn við umrætt svæði telur skipulags og byggingarnefnd óhætt að gera þessa tilraun á meðan unnið er í deiliskipulagi en sú vinna er þegar í gangi.
Fulltrúi Vg og óháðra, Hildur Þóra Magnúsdóttir, óskaði bókað að hún greiði atkvæði gegn umsókninni enda gangi hún þvert á umsögn Þjóðminjasafns Íslands, sem telur að matarvagn á svæðinu samræmist ekki þeirri ásýnd og upplifun sem lagt er upp með að skapa í Byggðasafninu í Glaumbæ.
Í viðtali við Akureyrarblaðið segir Helgi Freyr Margeirsson, sá sem sækir um leyfið, að hann hafi rætt þessa hugmynd við safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga sem hvatti hann til að sækja um leyfið í upphafi. „Ég hefði ekki farið af stað með þessa hugmynd annars. Þetta er einfaldlega söluvagn sem selur kaffi og tilbúnar veitingar. Vagninn verður ekki staðsettur á lóð byggðasafnsins. Hann er langt frá öllum fornminjum auk þess sem allt við vagninn og staðsetningu hans er að fullu afturkræft,“ segir Helgi Freyr við Akureyri vikublað.