Tveir Skagfirðingar í læri á Dill, fyrsta Michelin-stjörnu-staðnum á Íslandi

„Bak við hvern veitingastað er fallegur hópur fólks og þessu ber að fagna,“ segir á Facebooksíðu Dill Restaurant. Kristinn Gísli er þriðji frá vinstri og Agnes Bára honum á vinstri hönd. Mynd: Dill Restaurant.
„Bak við hvern veitingastað er fallegur hópur fólks og þessu ber að fagna,“ segir á Facebooksíðu Dill Restaurant. Kristinn Gísli er þriðji frá vinstri og Agnes Bára honum á vinstri hönd. Mynd: Dill Restaurant.

Veitingastaðurinn Dill Restaurant á Hverfisgötu hlaut þann heiður, fyrstur veitingastaða á Íslandi, að fá Michelin-stjörnu í gær en um er að ræða eina stærstu viðurkenningu sem veitingastaðir um allan heim keppast um að fá. Það er gaman frá því að segja að tveir matreiðslunemar á Dillinu eru Skagfirðingar.

Auk Michelin stjörnunnar hefur Dill Restaurant hlotið margskonar viðurkenningar og nokkrum sinnum verið valinn besti veitingastaður Íslands á listum á borð við White Guide Nordic, Nordic Prize og víðar.

Nemarnir tveir sem áður voru nefndir heita Agnes Bára Aradóttir úr Varmahlíð og Kristinn Gísli Jónsson frá Sauðárkróki. Feykir náði tali af Kristni Gísla í dag en hann byrjaði á Dillinu í nóvember sl. að nema matreiðslu. Kristinn hóf námsferilinn á Lava Restaurant í Bláa lóninu í september 2015. „Það er svosem ekkert eitt sem þarf að gera. Það er aðallega að halda uppi standard en í okkar tilfelli erum við með mat og umhverfi sem býr til einstaka upplifun,“ segir Kristinn aðspurður um hvað þurfi að gera til að krækja sér í Michelin stjörnu. Hann segir þetta hafa góð áhrif á starfsemina en staðurinn er einkar vinsæll. Segir hann að uppbókað sé fram á sumar. 

Sjá Facebooksíðu Dill Restaurant HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir