Vel heppnaður íbúafundur á Borðeyri

Frá Borðeyri. Mynd: Visithunathing.is
Frá Borðeyri. Mynd: Visithunathing.is

Vilhelm Vilhelmsson og Sólveig Hulda Benjamínsdóttir. Mynd: Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir.Þann 1. júní sl. var haldinn íbúafundur á Borðeyri þar sem kynntur var undirbúningur Húnaþings vestra að umsókn um að gamli þorpskjarninn á Borðeyri verði skilgreindur sem verndarsvæði í byggð.

Í upphafi fluttu Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, og Vilhelm Vilhelmsson, doktor í sagnfræði, kynningu á verkefninu. Að því loknu svaraði Vilhelm fyrirspurnum ásamt Sólveigu Huldu Benjamínsdóttur, forstöðumanni safna í Húnaþingi vestra en hún á veg og vanda að umsókninni. Kom þar fram að yrði Borðeyri skilgreind sem verndarsvæði í byggð mætti líta á það sem opinbera viðurkenningu á merkilegri sögu staðarins og hefði þýðingu fyrir menningarsögu landsins í heild. Verkefnið á við gömlu húsin niðri á eyrinni en ekki húsin úti á grundinni og uppi á hæðinni. Þarna standa elstu húsin sem þegar eru friðuð, s.s. Riishús, eða sem eru orðin eða að verða umsagnarskyld hús, það er byggð 1925 eða eldri. Fornleifaskráning fyrir staðinn er nú þegar til en gera þarf húsaskráningu og fá eins áreiðanlegar heimildir og hægt er um hvert hús. Eftir það verður gert varðveislumat.

Fari svo að umsóknin verði samþykkt er ekki leyfilegt að rýra varðveislugildi verndarsvæðisins sem leggur óneitanlega kvaðir á húseigendur á svæðinu en á móti kemur að sá möguleiki opnast að sækja í opinbera sjóði um styrki til viðhalds og endurbóta á húsunum. Verndarsvæði fá “lógó” sem notuð eru til að vísa á staðinn og kallar viðurkenningin á aukna athygli ferðamanna.

Á fundinn mættu um 20 manns. Fundargestir voru almennt áhugasamir um verkefnið og var fjölmörgum spurningum beint til kynningaraðila. Annar íbúafundur er fyrirhugaður með haustinu þar sem Vilhelm mun kynna vinnu sína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir