Helgi Freyr ráðinn aðstoðarþjálfari Tindastóls

Helgi Freyr Margeirsson mun koma inn í þjálfarateymi meistaraflokks Tindastóls í körfubolta næsta tímabil. Aðspurður sagðist hann ekki endilega vera hættur að spila og verði líklega spilandi aðstoðarþjálfari a.m.k. fyrst um sinn. „Ég ætla bara að sjá til. Ef ég get hjálpað liðinu eitthvað með því að leika einhverjar mínútur geri ég það. Annars kemur það allt í ljós næsta vetur,“ segir hann. Feykir henti nokkrum spurningum á Helga.

Hvað kom til að þú ferð í þjálfateymið? -Ég geri mér grein fyrir því að það styttist í það að skórnir verði lagðir á hilluna hvað varðar minn feril sem leikmanns, það er bara óumflýjanlegt. Ég tel að ég geti nýtt þá reynslu sem ég hef öðlast í gegnum þann feril, og það leiðtogahlutverk sem ég hef verið í á þeim tíma og þannig gert gagn sem aðstoðarþjálfari Tindastóls á komandi tímabili. Ég er vel tengdur leikmönnum liðsins, og þykir alveg ótrúlega vænt um þá alla og vil þeim bara það besta þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að þeir taki mér illa. Og svo höfum við Martin átt mjög gott og hreinskilið samstarf hingað til sem ég tel að eigi eftir að þróast enn meir.

Hvernig líst þér á þetta nýja hlutverk? -Mér list vel á það, tel mig ágætlega undirbúinn fyrir það. Eins og þeir sem fylgst hafa með leikjum liðsins hef ég mikið verið í eyranu á Martin þjálfara og einnig verið að taka að mér stærra hlutverk í því að standa við bakið á ungu leikmönnunum liðsins. En það vill oft gleymast þar sem það hefur gengið mjög vel síðustu ár að þessir strákar sem bera liðið uppi eru ekki mjög gamlir þó þeir séu þegar komnir með mjög mikla reynslu í að spila í stórum leikjum og við toppinn á stærstu deildinni á Íslandi.

Glæsileg frammistaða í bikarnum en eins og liðið næði ekki upp sömu stemningu í úrslitum í deildinni. Hver var munurinn á þessum leikjum eða keppnum og hvað vantaði upp á að Stólar gætu klárað deildina með Íslandsmeistaratitli?  -Það er eiginlega allt öðruvísi við þessar tvær keppnir. Bikarinn er alltaf bara einn leikur og taparinn dettur úr keppni og sigurvegarinn heldur áfram og liðið var bara á mjög góðum stað á þessum tíma. Það má í raun segja að liðið hafi verið að toppa þarna.  Leikmenn komu inn í þessa leiki sem voru búnir að hafa hægt um sig í upphafi móts og liðið náði að nýta alla sína styrkleika fannst manni. Stemmningin í Laugardalshöllinni var líka ólýsanleg enda unnum við Bikarinn, en rústuðum stúkunni! 

Í Úrslitakeppninni eru leikmenn í liðinu sem höfðu verið burðarásar að lenda í meiðslum og annars konar truflunum sem höfðu því miður allt of mikil áhrif á leik liðsins og í seríu þar sem liðin eru að mætast oft og bæði lið vita nákvæmlega allt um hvort annað að þá skipta öll smáatriði mjög miklu máli. En þrátt fyrir þetta vorum við að mínu mati bara sjónarmun frá því að fara alla leið þar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir