„Framtíð kórsins er björt“
Á Hólahátíð sem fram fór um miðjan ágúst stjórnaði Helga Rós Indriðadóttir Skagfirska kammerkórnum í síðasta sinni. Hún hefur verið stjórnandi kórs-ins frá árinu 2013 en lætur nú staðar numið. Helga segist í samtali við Feyki vera mjög þakklát fyrir að hafa unnið með öllu þessu góða fólki og kynnst fullt af góðri tónlist. Hún segir fjölda fólks hafa starfað í kórnum í gegnum árin, endurnýjun hafa verið töluverða en þó eru mörg af stofnfélögum kórsins enn starfandi í honum. Kórinn var stofnaður árið 2000 af Blöndhlíð-ingnum Sveini Arnari Sæmundssyni.
Þegar Helga er spurð hvað standi upp úr frá þessum tíu árum kemur margt upp í hugann hjá henni. „Það hafa oft verið töfrastundir þegar krefjandi lög hafa smollið saman á tónleikum en kórinn syngur jú aðallega án undirleiks. Það var enginn bilbugur á Covid árunum, ef ekki mátti hittast vegna fjöldatak-markana var æft á Zoom. Hátíð-leikinn í troðfullri Hólakirkju fyrir jólin þar sem ungir söngnemendur tóku þátt ár eftir ár, æfingar á lögum við ljóð Skagfirðingsins Hannesar Péturssonar og frumflutningur á lagi Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar við ljóðið Bláir eru dalir þínir á Degi íslenskrar tungu 2021 og þátttaka kórsins í viðburði um Eyþór Stef-ánsson tónskáld, Eyþór og Lindin, í nóvember 2022 svo eitthvað sé nefnt,“ segir Helga.
Stórverkið Magnificat mjög eftirminnilegt
Stærsta og eftirminnilegasta verkefnið að sögn Helgu er flutningurinn á verki Johns Rutter, Magnificat, í tengslum við hátíðahöld á fullveldisárinu 2018 en hún söng þar einsöng í verkinu.
„Það var átak en öll lögðu hönd á plóg við framkvæmdina undir styrkri forystu þáverandi formanns kórsins, Svanhildar Pálsdóttur. Mér er mjög minnisstæð kóræfing á Löngumýri í upphafi æfinga á þessu stóra verki, Margrét Óladóttir hjálpaði gjarnan til með raddæfingar og undirleik og var með karlaraddir í kapellunni en ég með kvenraddir í stofunni. Ég held að þeim hafi ekki meira en svo litist á blikuna þegar við vorum að fara yfir fyrstu blaðsíðurnar á fyrsta kafla af sjö! En þetta tókst frábærlega með góðri ástundun og síðan í samvinnu við Kammerkór Norðurlands og Guðmund Óla Gunnarsson sem þá stjórnaði Sinfóníettu Vesturlands. Það var ómetanlegt að fá að taka þátt í páskatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands undir stjórn Guðmundar Óla í apríl síðastliðnum og flytja verkið aftur, fimm árum seinna eftir alla þá miklu vinnu sem lögð var í það á sínum tíma.“
Hvernig sérðu fyrir þér framtíð kórsins og hlutverk hans innan samfélagsins, núna þegar þú ert á förum? „Framtíð kórsins er björt, hann hefur yfir að búa góðu söngfólki og ég vona að hans hlutverk verði áfram mikilvægt innan okkar sam-félags með nýjum kórstjóra því alltaf kemur maður í manns stað og öllum breytingum fylgir ákveðinn ferskleiki. Það er gaman að hafa tekið þátt í þróun Skagfirska kammerkórsins og ég tel þau vel í stakk búin að takast á við hin ýmsu krefjandi verkefni. Kórinn hefur alla tíð verið mjög virkur, hefur til dæmis staðið fyrir dagskrá á Löngumýri á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember ár hvert í samstarfi við kennara og nemendur 7. bekkjar Varmahlíðarskóla. Að sækja jólatónleika í Hóladómkirkju og í Blönduóskirkju sem báðar eru dásamleg sönghús er orðið að hefð fyrir mörg á jólaföstu og vortónleikarnir, þar sem kórinn syngur inn sumarið á sumardaginn fyrsta í Miðgarði, eru ómissandi, auk þess sem kórinn er oft kallaður til að syngja við hin ýmsu tækifæri.“
Hvað tekur við hjá þér? „Ég held áfram að vinna í tónlist sem einsöngvari, kórstjóri og kennari en ég syng við hin ýmsu tækifæri, stjórna kvennakórnum Sóldísi, er í fullri stöðu sem píanókennari við Tónlistarskóla Skagafjarðar og er með einkatíma í söng. Auk þess er ég fjárhirðir á búi Rósu móður minnar á Hvíteyrum, svo það má segja að ég hafi í mörg horn að líta.“
- - - - -
SMH / Viðtalið birtist fyrst í 31. tölublaði Feykis sem kom út 22. ágúst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.