Vill sjá Tindastólsfólk fjölmenna á völlinn
Lið Tindastóls í Bestu deild kvenna krækti í sjöunda sætið í deildinni þegar liðið gerði jafntefli við Norðurlandsrisann Þór/KA á sunnudaginn. Stelpurnar okkar náðu að hala inn 19 stig í 18 leikjum sem er fimm stigum meira en í Pepsi Max deildinni fyrir tveimur árum. Feykir lagði nokkrar léttar spurningar fyrir þjálfara liðsins, Donna Sigurðsson, því ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið – úrslitakeppni um að halda sæti í Bestu deild að ári hefst um næstu helgi.
Fyrst var Donni spurður hvað honum hafi þótt um frammistöðu liðsins í leiknum við Þór/KA. „Við erum mjög ánægð með frammistöðu liðsins i heild sinni. Við fengum fínar stöður til að skora auk þess að fá besta færi leiksins. Við fengum nokkur færi á okkur en bæði vörnin og Monica náðu að verjast öllu sem að marki kom. Orkan, stemningin, barráttan og dugnaðurinn var algerlega til fyrirmyndar. Við hefðum gjarnan viljað geta fært boltann aðeins oftar á milli kanta og nýta föstu leikatriðin betur en annars ætla ég alla ekkert að kvarta, stelpurnar gáfu allt í þetta. Hörkuleikur frekar jafnra liða. Þór/KA náði aðeins betri stjórn á boltanum en mér fannst við eiga vel við þær lang oftast.
Ertu ánægður með árangur liðsins í deildarkeppninni í sumar? „Við vildum klárlega ná sjötta sætinu og stefndum á það. Það munaði alla vega ekki miklu þar og okkur finnst að við hefðum verðskuldað það sæti miðað við frammistöðu sumarsins. Stelpurnar eru klárlega búnar að bæta sig mikið og leikur liðsins í framför og þetta er vonandi eitthvað sem er hægt að halda áfram að bæta í þessari deild á næstu árum. En eftir þessa 18 leiki eru komin fleiri stig í hús heldur en áður hefur verið og við öll getum verið stolt af því. Við erum með okkar eigin örlög í okkar höndum og það er staða sem við öll vildum vera í fyrir úrslitakeppnina.
Þú ert farinn að treysta Elísu Bríeti og Birgittu í ansi stór verkefni þó þær séu aðeins 15 ára. Í leiknum síðasta sunnudag komu þær t.d. inn á í einum mikilvægasta leik sumarsins og helgina áður gegn Íslandsmeisturum Vals. Hverjir eru helstu kostir þeirra? „Elísa er ansi fjölhæfur leikmaður. Hún er tæknilega mjög góð og hefur mikinn leikskilning. Elísa er harðdugleg og hefur tekið stór skref. Birgitta er eldsnögg og með mjög góð skot. Hún er tæknilega góð og með flottan leikskilning. Þær eru klárlega framtíðarleikmenn liðsins ásamt þónokkrum öðrum hjá okkur. Við stöndum vel þegar kemur að framtíðar leikmönnum og mikilvægt að reyna að gefa þeim sénsa þegar hægt er.“
Hvernig leggst úrslitakeppnin í þig? „Úrslitakeppnin leggst mjög vel í okkur og við öll mjög spennt. Við erum mjög glöð að fá tvo heimaleiki og vonumst til að fólkið okkar mæti á völlinn og búi til sturlaða stemningu og hjálpi okkur að skrifa sögu Tindastóls þar sem félagið hefur aldrei haldið sér uppi tvö tímabil í röð.“
Stólastúlkur taka á móti liði Keflavíkur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar núna á sunnudaginn og hefst leikurinn kl. 16:15. Allir á völlinn – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.