Bjarni Jónsson flutti jómfrúarræðuna á Alþingi sl. mánudag
Bjarni Jónsson, varaþingmaður Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur 3. þingmanns Norðurlands vestra, tók sl. mánudag sæti á Alþingi í fyrsta skipti. Reið hann á vaðið í sérstakri umræðu um skipulag haf- og strandsvæða og lagði áherslu á hlutverk sveitarfélaganna og rannsóknastofnana á landsbyggðinni.
Á fésbókarsíðu sinni segir Bjarni að ræðan hafi snúist um aðalskipulag sveitarfélaga og svæðisskipulög sem fleiri sveitarfélög taka sig saman um, stundum um ákveðna málaflokka eins og samgöngur, ferðaþjónustu og náttúruvernd, eru eitt mikilvægasta stjórntæki sveitarfélaganna í landinu.
„Það er mikilvægt að sveitarfélögin fari með skipulag haf og strandsvæða á sínum svæðum, ekki síður en á landi. Hagsmunirnir eru mjög tengdir og miklir. Ég nefni ferðaþjónustu, sjávarnytjar, fiskeldi, verndun villtra stofna laxfiska, verndun á hafsbotni og lífríki. Samræmingu mismunandi nýtingar og verndunar. Ég tel vart réttlætanlegt að ganga á skipulagsvald og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, nema ríkir almannahagsmunir kalli á slíkt, svo sem vegna áforma um stórfelld náttúruspjöll, eða til að tryggja öruggt sjúkraflug,“ skrifar Bjarni.
Ræðuna í heild má sjá HÉR