Dreymdi um að vera 2Pac og Tom Waits / HELGI SÆMUNDUR

Helgi Sæmundur á Drangey Music Festival 2016.  MYND: PIB
Helgi Sæmundur á Drangey Music Festival 2016. MYND: PIB

Helgi Sæmundur Guðmundsson (Úlfur Úlfur), fæddur 1987, búsettur á Rauðarárstígnum í Reykjavík, segist hafa eytt bestu árum ævi sinnar í Jöklatúni og Eyrartúni á Sauðárkróki. Helgi segist ekki vera sérstaklega góður á neitt hljóðfæri en spilar á gítar, píanó, bassa, ukulele, mandolin, tölvur og syngja smá.

Helstu tónlistarafrek?  Fyrsta sæti á Rímnaflæði 2002, úrslit í músík-tilraunum 2002, sigur í Músík-tilraunum 2009, ein stuttskífa með Bróðir Svartúlfs í október 2009 og ein breiðskífa með Úlfur Úlfur í desember 2011.

Uppáhalds tónlistartímabil? Öll tónlistartímabilin held ég. Það er eitthvað uppáhalds allstaðar.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég bíð með fiðrildi í maganum eftir nýju Kid Cudi plötunni sem á að koma út á afmælisdaginn minn, þann 28. febrúar og ég er mikið að hlusta á Ratatat, Schoolboy Q, Tyler the Creator og fleira í þeim dúr. Ég myndi segja að skemmtilega pródúsuð rappmúsík eigi hug minn og hjarta þessa dagana. Flesta aðra daga líka. Indí/elektro músík í anda MGMT og Foster the People er líka tjúll. Svo er það sama á hvaða tímabili eða stað í lífinu ég er þá eru Tom Waits og 2pac alltaf velkomnir. Þeir eru bestir.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Pabbi elskar David Bowie. Þegar hann fékk tækifæri til að vera einn heima á föstudags- eða laugardagskvöldi þá hljómaði Bowie niður í Brekkutún. Mamma heldur mikið upp á Madeleine Peyroux og Patsy Cline. Mér fannst mjög gaman að heyra þetta allt. Ég þoli hinsvegar mjög illa óperusukk og bjölluhljóm á Rúv. Því miður fær það að hljóma líka við og við.

Hvað var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsti diskur sem ég eignaðist hét Penikufesin með thrash metal hljómsveitinni Anthrax. Hann fékk ég í gjöf frá Tjörva Berndsen frænda mínum. Fann hann um daginn og hlustaði í gegn. Ennþá jafn tjúllaður og þegar ég var fjögurra ára. Fyrsti diskurinn sem ég keypti mér hét Strictly 4 my n.i.g.g.a.z og var með 2pac. Annars tók ég upp á kasettu alla Skjaldböku þættina sem voru á Rás 2 fyrir öllum þessum árum undir stjórn Sesar A og BlazRoca. Þar var gott hiphop.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég man ekki hvað þær heita en ég gat keypt þær á raðgreiðslum í skaffó afþví að ég var að bera út á morgnana. Þær voru með fjarstýringu. Svo spilaði ég Sega á meðan ég hafði of hátt í þeim.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ég syng helst ekki í sturtu. Íbúðin mín er frekar hljóðbær.

Wham! eða Duran? Duran Duran all day.

Uppáhalds Júróvisjónlagið (erlent eða innlent eða bæði)? Silvíu Nótt lagið eða e-ð með Kristjáni Gísla. Þau eru frábærari en júróvision.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ef þetta væri að fara að gerast í kvöld myndum við hlusta á Ratatat, Gísla Pálma, Miike Snow, Daft Punk, Talk Talk, Blondie, Yelawolf, Drake og Schoolboy Q.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Closing Time og Alice með Tom Waits. Svo myndi ég hella upp á kaffi. Ég hlakka til sunnudagsins.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ef ég mætti ráða algjörlega og peningar væru engin fyrirstaða færi ég á tónleika með Tom Waits hvar sem er í heiminum. Líklega byði ég flestum vinum mínum með mér ef þeir byðu mér upp á bjór og héldu á töskunum mínum og töluðu ekki á meðan á tónleikum stendur.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? 2pac og Tom Waits en svo fór mér að líða ágætlega með að vera ég sjálfur. Sérstaklega afþví að sá fyrrnefndi er dáinn og hinn er kominn yfir sextugt.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Tom Waits – The Black Rider

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir