Skatastaðavirkjun í Skagafirði | Steinar Skarphéðinsson skrifar

Steinar Skarphéðinsson. MYND AF NETINU
Steinar Skarphéðinsson. MYND AF NETINU

Skatastaðavirkjun er hugsuð til þess að virkja Austari Jökulsá í Skagafirði. Uppsett afl virkjunar er 156 MW, orkugeta 1090 GWh/ár. Til þess að svo megi verða þarf að skapa uppistöðulón á hálendinu í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta lón kæmi til með að verða um það bil 26,3 km2eða um það bil helmingi minna en Blöndulón. Öll aðrennslisgöng að og frá stöðvarhúsi eru fyrirhuguð neðanjarðar þannig að með góðum frágangi ættu ekki að verða mikil náttúruspjöll.

Hvað vatnsrennsli varðar er nokkuð víst að sama magn skili sér til sjávar. Þar sem meðalrennsli í Héraðsvötn, fyrir og eftir virkjun, verður þar sama eða 60,5 m3/s. Lítilsháttar breyting verður á meðalrennsli við Goðdali eða úr 21,7 m3/s í 19,7 m3/s og við Skatastaði úr 38,7 m/3 í 15,4 m3/s.

Það er fróðlegt að skoða það álit sem faghópar hafa verið fengnir til þess að gera. Þar er talað um tegund á válista: Hreistursteinsbrjótur. Við það að gúggla hreisturssteinbrjót kemur í ljós að hann vex oftast í 800-1200 metra hæð (lónið er í 700m/h) og víða frá Skagafirði og austur í Þingeyjarsýslur og má heita á hverju fjalli á Öxnadallsheiði.

Það er ljóst að þessir faghópar hafa reynt að teygja sig eins langt og þeir gátu þar sem þeir nefna margar fuglategundir ótilgreindar á válista (hvaða fugla?). Ég get fallist á það að heiðagæs og grágæs séu mikilvægar fuglategundir en ég er líka viss um að þær væru til með að færa sig um set ef farið væri vel að þeim.

Þá er ég líka viss um að finnist kuml og haugfé á svæðinu þar sem lónið kemur verða þeim gerð góð skil.

Hvernig væri nú að fá faghóp sem skrifaði jákvætt um þessa mikilvægu framkvæmd? Hvernig væri það að við jafnara rennsli Héraðsvatna skapaðist eylendið sem gósenland til kornræktar? Hvernig væri það ef virkjun sem þessi skapaði það með jafnara rennsli að flóðahætta sem oft myndast á eylendi og að bæjarmörkum Sauðárkróks væri nánast úr sögunni? Hvað um alla þá vegi og brýr sem kæmu samhliða þesssari framkvæmd? Hvað um malbikaðan veg fram að Laugafelli, heitt vatn og fagra útivist? Hvað um umsvifin sem koma til með að skapast við framkvæmd sem þessa hér í héraði hjá hinum ýmsu verk-tökum og byggingaraðilum? Virkjunin kæmi til með að vera utan eldvirkra svæða. Svona má lengi telja.

Það er með ólíkindum að það skuli vera aðilar í héraði, bæði í sveitarstjórn og á Alþingi, sem eru að berjast gegn framkvæmd sem þessari.

Hvað um sveitarfélagið og peningahliðina? Í undirbúningi er hjá þinginu að sveitarfélög fái fasteignagjöld af mannvirkjum sem þessum. Ljóst er að með óbeysluðum Héraðsvötnum renna gífurlegir fjármunir til sjávar á hverri mínútu og eftir samtal við Landsvirkjun fékk ég þær upplýsingar að orka sem þessi virkjun framleiddi væri að verðmæti um 6,5 milljarðar á ári.

Sauðárkróki í apríl 2024
Steinar Skarphéðinsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir