Boðið upp á markasúpu á Króknum

Hólmar Daði Skúlason fær flugferð frá varnarmönnum Völsungs. Takið eftir buxum kappans á miðri mynd. MYND: ÓAB
Hólmar Daði Skúlason fær flugferð frá varnarmönnum Völsungs. Takið eftir buxum kappans á miðri mynd. MYND: ÓAB

Það var líf og fjör á Sauðárkróksvelli þegar sígrænir Völsungar skröltu í heimsókn frá Húsavík. Lið Tindastóls hefur verið í ágætu stuði upp við mörk andstæðinga sinna í síðustu leikjum og það varð engin breyting á því í dag. Eftir fjörugan og kaflaskiptan leik sigruðu heimamenn 4-3 og skutust þar með upp fyrir lið Völsungs í sjötta sæti 2. deildar.

Um var að ræða síðasta heimaleik Tindastóls þetta sumarið og fór leikurinn fram í 16 stiga hita en nokkrum sunnanvindi sem hafði svo sem ekki stór áhrif á spileríið. Fannar Kolbeins hóf veisluhöldin með marki strax á 2. mínútu. Gestirnir náðu undirtökunum í framhaldi af því og jöfnuðu metin úr aukaspyrnu á 29. mínútu. Þar var á ferðinni markamaskínan Sæþór Olgeirsson og hann átti eftir að láta til sín taka í leiknum. Á 34. mínútu gerði Tanner Sica sig sekan um slæm mistök í vörn Stólanna og endaði með að brjóta af sér í teignum og Sæþór skoraði af öryggi í markið hjá Gísla Sveins sem enn á ný stóð á milli stanganna.

Nú loks rifu Stólarnir sig í gang og Greg Conrad jafnaði metin á 36. mínútu, 2-2, eftir að hafa fengið stungu inn fyrir vörn gestanna. Leikmenn Tindastóls voru nú líklegri og áttu nokkrar ágætar sóknir og það var síðan á 45. mínútu sem Tanner átti frábæra sendingu fyrir mark Völsungs, eftir gott spil upp vinstri kantinn, og þar var Greg mættur á ný og skoraði af öryggi framhjá Halldóri Þorgríms í marki Völsungs. Staðan 3-2 í hálfleik.

Það mátti reikna með að Stólarnir létu kné fylgja kviði undan vindinum í síðari hálfleik en þá hafði heldur lægt og það voru gestirnir sem tóku öll völd á vellinum. Heimamenn komust ekki fram yfir miðju með boltann fyrstu 15 mínúturnar. Stólarnir fengu þó aukaspyrnu inni á vallarhelmingi Völsungs á 63. mínútu. Spyrnan var misheppnuð en Jón Gísli fékk boltann út við hliðarlínu og hann sendi boltann þéttingsfast inn að marki gestanna og þar tókst Halldóri í markinu að slá boltann í eigið mark. Góð staða Stólanna og þeir voru aðeins sentimeter frá því að bæta við fimmta markinu skömmu síðar þegar Konni dúndraði á markið úr aukaspyrnu af 40 metra færi og boltinn fór efst í stöngina hægra megin og síðan þvert fyrir markið.

Eftir þetta náðu gestirnir aftur tökum á leiknum og Sæþór kórónaði þrennuna með marki úr aukaspyrnu sem Gísli hefur sennilega verið ósáttur við að hleypa í markið. Gestirnir pressuðu síðustu mínútur leiksins og reyndu ítrekað að fiska auka- og vítaspyrnur. Stólarnir reyndu að gera út á skyndisóknir en sendingarnar oftar en ekki ónákvæmar undan vindinum sem hafði tekið við sér á lokamínútunum. Völsungar heimtuðu víti í uppbótartíma og allt virtist við það að sjóða upp úr en stuttu síðar flautaði dómarinn til leiksloka.

Það má sennilega til sanns vegar færa að Stólarnir hafi haft heppnina með sér í dag en þrátt fyrir talsverða yfirburði á löngum köflum úti á vellinum þá gekk Völsungum ekki vel að skapa sér dauðafæri. Oftar en ekki reyndist úrslitasendingin ekki rata rétta leið og síðan börðust Bjarki, Fannar, Ísak og Tanner eins og ljón um alla bolta. Stólunum hélst hins vegar illa á boltanum og mest allan síðari hálfleikinn gekk afleitlega að byggja upp sóknir. Í lið Stólanna vantaði nokkra sterka pósta og má þar nefna Brentton markmann, Bjarna Smára, Ragga Gunn og Ingva Hrannar.

Nú er aðeins eftir að spila eina umferð í 2. deildinni og halda Tindastólsmenn austur á Seyðisfjörð og spila þar við Huginn næstkomandi laugardag. Með sigri gætu Stólarnir jafnað Huginn að stigum sem er nú í þriðja sæti deildarinnar. Lið Tindastóls er með 31 stig að loknum 21 leik. Ljóst er að Njarðvík og Magni Grenivík eru komin upp í Inkasso-deildina en lið Sindra á Hornafirði er fallið og annað hvort KV eða Höttur Egilsstöðum fylgja þeim niður í 3. deild.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir