Borealis Data Center sækir um lóð fyrir gagnaver á Blönduósi

Skjáskot - yfirlitsmynd sem finna má á vef Blönduósbæjar.
Skjáskot - yfirlitsmynd sem finna má á vef Blönduósbæjar.

Á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar sl. fimmtudag, þann 8. febrúar, var umsókn einkahlutafélagsins Borealis Data Center um lóð fyrir gagnaver á svæði sem er í skipulagsferli við Svínvetningabraut, tekin til afgreiðslu. Áformað er að byggja tvö hús á lóðinni á þessu ári og verður fyrsta húsið stálgrindarhús á steyptum sökkli, um 16x48 m að stærð eða um 640 m2. Næsta hús verður um 12x48 m eða um 580 m2 að stærð. Áætlað er að fleiri hús verði byggð á lóðunum á næstu árum.

Í júní á síðasta ári áttu fulltrúar frá Borealis Data Center fund með sveitarstjórn Blönduósbæjar en fyrirtækið var á höttunum eftir hentugri staðsetningu fyrir gagnaver þar sem landrými er nægt og aðgengi að raforku gott.  Blönduós hefur verið talinn ákjósanlegur staður fyrir gagnaver og hefur 270 hektara land verið tekið frá í aðalskipulagi fyrir þess konar starfsemi. Nálægðin við Blönduvirkjun er talinn mikill kostur, öruggur orkuflutningur og um skamman veg að fara. Samgöngur eru greiðar og ennfremur er svæðið ákjósanlegt vegna lítillar hættu á náttúruvá, s.s. jarðskjálftum, eldgosum, snjóflóðum og skriðuföllum. 

Byggðaráð  samþykkti að úthluta Borealis Data Center ehf. umræddum lóðum samkvæmt nánari útfærslu í samráði við umsækjanda í samræmi við eftirfarandi bókun frá skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósbæjar frá 7. febrúar sl.

"Nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hefur verið auglýst og er umsagnarfrestur liðinn. Tekið er jákvætt í erindið. Nefndin mælir með því við byggðaráð að úthluta Borealis Data Center ehf. lóðinni með fyrirvara um samþykki Skipulagsstofnunar á deiliskipulaginu og auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda. Ef framkvæmdir verða ekki hafnar innan 12 mánaða frá lóðarúthlutun fellur hún aftur til sveitarfélagsins."

Tengdar fréttir: 

Blönduósbær auglýsir deiliskipulag fyrir gagnaver

Fundað um hugsanlegt gagnaver á Blönduósi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir