Ekki þarf að slátra því fé sem fór yfir Blöndu

Hér sést hvernig varnarhólf eru skilgreind samkvæmt lögum. Mynd: MAST.
Hér sést hvernig varnarhólf eru skilgreind samkvæmt lögum. Mynd: MAST.

Greint var frá því í upphafi vikunnar að Matvælastofnun hefði tekið ákvörðun um að á fjórða hundrað fjár sem fór yfir sjúkdómavarnarlínu Blöndu í sumar yrði slátrað í haust. Nú hefur stofnunin fallið frá þeirri kröfu. Samkvæmt skilgreiningu MAST er Blanda í flokki varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma og er því ekki heimilt að flytja fé þar yfir. Varnir við ána eru þó litlar og eftir að áin var virkjuð er hún þurr á stórum kafla og því greiðfært fyrir fé þar yfir.

Ingi Tryggvason, lögfræðingur, sendi fyrir hönd fimmtán bænda í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði, kröfu á sýslumanninn á Norðurlandi vestra um lögbann á það að umræddu fé yrði slátrað. Að sögn Inga byggðist krafan aðallega á því að engin rök væru til þess að ákveða í skyndi að Blanda skuli vera varnarlína þegar lítið sem ekkert vatn er í henni þann hluta ársins sem Blanda er ekki á yfirfalli en þannig hefur það verið frá því að Blanda var virkjuð um 1990. „Þá hefur það tíðkast allt frá 1982 að flytja fé til baka sem hefur farið yfir farveg Blöndu. Því væri ekki hægt að líta svo á að umrætt sauðfé hefði farið yfir varnarlínu og þá væri það örugglega þannig að fjöldi fjár hefði farið fram og til baka yfir farveg Blöndu í sumar og því samgangur sauðfjár á svæðinu töluverður“, segir Ingi.

Tengd frétt: Öllu fé sem fór yfir Blöndu í sumar skal slátrað

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir