Fyrsti bændamarkaður sumarsins á Hofsósi á laugardaginn

Markaðurinn verður haldinn í gamla Pakkhúsinu á Hofsósi sem er til hægri á myndinni. Mynd:FE
Markaðurinn verður haldinn í gamla Pakkhúsinu á Hofsósi sem er til hægri á myndinni. Mynd:FE

Á laugardögum í sumar verða haldnir bændamarkaðir í pakkhúsinu á Hofsósi. Það er Matís sem stendur að verkefninu í samstarfi við skagfirska framleiðendur og er Rakel Halldórsdóttir, starfsmaður Matís sem búsett er á Hofsósi, hvatamaðurinn að þeim.

Á bændamarkaði verður til sölu ýmislegt góðgæti sem framleitt er af bændum í héraði; kjöt og fiskur, egg og hunang, blóm og grænmeti svo eitthvað sé nefnt. Einnig verða bætiefni, snyrtivörur og margs konar handverk frá skagfirsku handverksfólki á boðstólum.

Á Facebooksíðu bændamarkaðarins segir: „Markmiðið með starfi Bændamarkaðarins Hofsósi er að auka aðgengi nærsamfélagsins og gesta að frumframleiðslu og afurðum Skagafjarðar og styðja þannig starf framleiðenda til aukinnar sjálfbærni samfélagsins, og miðla um leið menningarsögu og hefðum staðarins. 
Um samfélagsverkefni á vegum Matís ohf. er að ræða, enda þátttaka bænda og framleiðenda í markaðnum gjaldfrjáls. Þá leggur Þjóðminjasafn Íslands hið menningarsögulega Pakkhús frá um 1777 til verkefnisins skv. samningi við Matís ohf. en Pakkhúsið er hluti af Húsasafni Þjóðminjasafnsins. Vesturfarasetrið Hofsósi og Veitingastaðurinn Sólvík Hofsósi styðja verkefnið einnig. Sala framleiðenda á markaðnum er á þeirra eigin vegum til eflingar og kynningar starfsemi þeirra.“

Fyrsti bændamarkaðurinn á Hofsósi verður haldinn nk. laugardag, þann 30. júní en um helgina verður einnig haldin þar bæjarhátíðin Hofsós heim. Markaðurinn verður opinn milli 13 og 16 alla laugardaga í sumar.

 

Sjá einnig Hefjum nýjar hefðir og viðhöldum gömlum - Rakel Halldórsdóttir, starfsmaður Matís í viðtali

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir