Heildartekjur KS 2017 voru rúmir 33 milljarðar

Það var létt yfir fundarmönnum er blaðamaður leit við í Selinu  sl. laugardag. Umræður voru góðar og mikið rætt um stöðu sauðfjárbænda. Mynd: PF.
Það var létt yfir fundarmönnum er blaðamaður leit við í Selinu sl. laugardag. Umræður voru góðar og mikið rætt um stöðu sauðfjárbænda. Mynd: PF.

Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga fór fram í Selinu í Kjötafurðastöð KS sl. laugardag að viðstöddu fjölmenni. Árið 2017 er stærsta einstaka fjárfestingaár í allri sögu félagsins sem námu allt að 14 milljarða króna. Í árslok voru dótturfélögin 14 talsins en nokkur þeirra mynda sjálf samstæðu með dótturfélögum sínum. Hagnaður félagsins var rúmir 2,3 milljarðar.

Eignir félagsins eru metnar á tæpa 50 milljarða og jókst um tæpa 10 milljarða milli ára. Og eru veiðiheimildir og aðrar óefnislegar eignir hæstar eða tæpir 14 milljarðar. Fasteignir námu rúmu 9 milljörðum og skip 3,8 milljarðar.

Í inngangsorðum Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra, kom fram að rekstur Kaupfélagsins 2017 samanstóð af sömu fyrirtækjum og mynduðu rekstarsamstæðu félagsins 2016. Eina breytingin var  sú að undir lok rekstarársins 2017 keypti FISK Seafood útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Soffaníus Cecilsson í Grundarfirði, en það félag hefur með höndum fiskvinnslu og útgerð á tveimur bátum. Kaupin höfðu hins vegar í för með sér verulega stækkun á efnahagsreikningi félagsins.

Heildartekjur á árinu 2017 voru 33,1 milljarður sem er hækkun um tæpa tvo milljarða frá fyrra ári rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 4,2 milljarða sem er sama tala og 2016.fjöldi ársverka var tæplega 950, sem er lítilsháttar fjölgun miðað við árið 2016 og laun og launatengd fjöld voru um 7,8 milljarðar á árinu 2017.

Stærstu einstöku rekstrarþættir samstæðunnar miðað við tekjur á árinu 2017 voru: Kaupfélag Skagfirðinga svf. 11,6 milljarðar, FISK Seafood ehf. 7,4 milljarðar og Fóðurblandan hf. 5,6 milljarðar.

Á fundinum skapaðist mikil umræða um stöðu sauðfjárbænda en hún hefur verið erfið undanfarin misseri. Voru menn sammála um að spýta þyrfti í lófana og taka á markaðsmálunum fyrir sauðfjárafurðir. Þórólfur Gíslason upplýsti fundarmenn um það hve sterk króna er erfið fyrir allan útflutning, hvort það eru sjávar- eða landbúnaðarafurðir, steinull eða annað.

„Mikilvægt er að samstaða náist meðal sauðfjárbænda og sláturleyfishafa um aðgerðir er gagnist atvinnugreininni til framtíðar litið. Annars er hætt við óæskilegri og neikvæðri búseturöskun,“ sagði Þórólfur.

Þrátt fyrir erfitt rekstarumhverfi vegna hás gengis íslensku krónunnar á síðasta ári varð hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga rúmir 2,3 milljarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir