Ef þú öskrar ekki CHA ættirðu kannski ekki að vera í partíinu mínu!? / DANÍEL LOGI

Rokkið er ekkert grín í Noregi. Hér plokkar Daníel Logi bassann. MYND AÐSEND
Rokkið er ekkert grín í Noregi. Hér plokkar Daníel Logi bassann. MYND AÐSEND

„Út vil ek.“ sagði Snorri Sturlu í denn og hugðist stefna til gamla Norvegs. Nú rak á fjörur Tón-lystarinnar alíslenskur norskur þungarokkari sem fer fimum fingrum um bassa í hljómsveitinni Dark Delirium – sem er svona sveit sem getur stillt magnarann á ellefu svo vitnað sé í þá ágætu rokk-sveitarmynd, Spinal Tap. Það er Króksarinn Daníel Logi Þorsteinsson sem um er að ræða.

Hann býr núna í Sandnes í suðvestur Noregi, fæddur í Noregi 1997 „...en ólst upp í efstu Raftahlíðinni á Króknum. Ég er sonur Dóru Heiðu Halldórsdóttur og Steina Brodda og er þar með barnabarn Imbu Tomma og Brodda Þorsteins,“ segir hann. „Aðalhljóðfærið mitt er bassagítarinn og kenndi ég mér á hann sjálfur. Ég valdi að verða bassaleikari ungur en þegar ég og mamma ætluðum að kaupa bassa þá bannaði sölumaðurinn mér að kaupa bassa ef ég kynni ekki á gítar. Svo við keyptum gítar og ég lærði á hann í Tónlistarskóla Skagafjarðar, fyrst hjá Sorin Lazar og svo seinna Reyni Snæ Magnússyni. Eftir nokkur ár á gítar tók ég upp bassann sem aðalhljóðfæri. Ég spila svo einnig á mandolin og munnhörpu og hef lært klassískan söng og syng ég mikið.“

Hvert finnst þér vera helsta afrek þitt á tónlistarsviðinu hingað til? „Ég myndi segja að það væri að hafa gefið út plötur og búið til tónlist sem ég er stoltur af og hafa fengið góðar undirtektir, bæði hjá aðdáendum og fjölmiðlum/tónlistargagnrýnendum. Ég hef verið að spila í Noregi og flytja tónlist mína með strákunum í hljómsveitinni.“

Hvað er á döfinni [spurt um miðjan september]? „Akkúrat núna er hljómsveitin mín, Dark Delirium, að fara að gefa út sína fjórðu plötu, Solitude, í nóvember. Við erum að klára síðustu lögin og hlökkum við til að sjá hvað fólk hefur að segja um hana.“

Hvaða lag varstu að hlusta á? „The Communists Have the Music með They Might Be Giants. Fékk allt í einu rosalegt æði fyrir þeim og er að reyna að fá vinkonu mína til að vera með mér í því æði. Það gengur mjög hægt.“

Uppáhalds tónlistartímabil? „Níundi áratugurinn. Dregst alltaf aftur að honum, hvort sem það er rokk, metal, punk og postpunk eða popp. Það var á þeim áratug sem tónlistarsmekkurinn minn mótast, þá hlustaði ég á hljómaveitir eins og Iron Maiden, Queen og The Cure.“

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Upp á síðkastið hefur það verið rafmetal tónlist. Sveitir eins og Electric Callboy eða hann Käärijä [Cha Cha Cha] hafa verið að draga hana fram og finnst mér það mjög skemmtileg tónlistarstefna.“

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „The Art of Dying með Gojira. Skrítnir, eða réttara sagt, óhefðbundnir taktar og taktbreytingar hafa alltaf heillað mig og er þetta lag með fullkomið intro af þeim. Er svo með harða keyrslu og þyngd, flottan texta og góðan hljóðfæraleik og raddbeitingu.“

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? „Freddie Mercury. Einn flottasti söngvari allra tíma. Það væri örugglega Love of my Life sem við tækljum saman við félagarnir. Er svo rosalega fallegt lag, fæ oft tár í augað við að hlusta á það.“

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Allt mögulegt. Pabbi er mikið fyrir að hlusta á allt sem er eitthvað sem ég lærði af honum. En ef ég horfi til baka var mikið hlustað á Sniglabandið, Mannakorn, Queen, ELO og Mika.“

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Það var Somewhere Back in Time. Safnplata af bestu lögum Iron Maiden frá 1980-89. Keypti mér þann geisladisk í tónlistarbúð í Kringlunni þegar ég var í skólaferðalagi 7. bekkjar Árskóla.“

Hvaða græjur varstu þá með? „Var lítill græjukall, var svo ungur þá, svo ég held það hafi verið Philips ferðaútvarp með geislaspilara.“

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Breakthrough með Queen. Pabbi átti Queen Greatest Hits II safnplötuna á VHS spólu með öllum tónlistarmyndböndunum. Ég sat oft fyrir framan sjónvarpið og horfði á myndböndin. Það var oft sem ég horfði ekki á barnatímann, þetta var barnatíminn minn.“

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Það eru ekki mörg lög sem fara óstjórnalega í taugarnar á mér en nýju vinsælu lögin sem byggja á gömlum þekktum lögum pirra mig pínu því ég væri miklu meira til í að hlusta á upprunalega lagið frekar – eins og I'm Good (Blue) með David Guetta. En ef einhver vill gera mig bilaðan þá er Alle mine fine ugler eftir Bare Egils Spilemansband pyntingartól. Tíu mínútna langt lag um uglu með hatt og uglu í tré o.s.frv. með engu rími næstum því og í hvert sinn sem maður heldur að lagið sé búið þá heldur það áfram. Þetta er yfirleitt sett á eftir nokkra tíma í bílnum þegar við erum að ferðast fyrir eða eftir tónleika og er alltaf jafn hatað!“

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Cha Cha Cha með Käärijä. Lagið sem ÁTTI að vinna Eurovision í ár. Kemur mér að minnsta kosti í stuð og ef þú öskrar ekki CHA með mér þá ættirðu kannski ekki að vera í partíinu mínu!“

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Jazz. Tvö lög sem mér dettur í hug um leið: Desafinado með Stan Getz og João Gilberto, og Girl from Ipanema með þeim sömu ásamt Astrud Gilberto.“

Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? „Helter Skelter, eitt af þeim lögum sem höfðu rosaleg áhrif á að metaltónlist yrði til. Það væri fínt að geta montað sig á að hafa samið það. Er svo er það líka bara þrusugott lag.“

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég myndi fara á Electric Callboy tónleika í Þýskalandi og taka söngvarann úr hljómsveitinni minni með. Það eru alltaf læti og gaman þegar við förum á tónleika saman. Ég hef verið að hlusta á 2022 live plötuna þeirra í vinnunni og það er rosalegt stuð ef marka má stemninguna í salnum á þeim tónleikum.“

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Það tók mig smástund að hugsa en það hlýtur að hafa verið Metallica sem ég hlustaði mest á á þeim tíma. Svo var aðallega metal og rokk en líka klúbbtónlist (eins og með Martin Garrix) sem var vinsæl á þeim tíma. Maður var rosa kúl rúntandi með lagið Animals á repeat.“

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? „Freddie Mercury hefur ávallt verið minn uppáhalds tónlistarmaður og stend á því að hann sé einn best söngvari allra tíma og frábær lagasmiður.“

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? „The Wall með Pink Floyd. Ég hlusta yfirleitt á hana fram yfir Dark Side of the Moon, set þá á fyrsta lagið og hlusta á hana frá A-Ö. Hún hafði mikil áhrif á hvernig ég nýt tónlistar, og opnaði fyrir mér Concept-albúma heiminn. Þá fór ég að hlusta á Jathro Tull, Rush og Frank Zappa svo einhverjir séu nefndir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir