Mikill línudans með Blöndulínu 3

Þetta mydarlega skilti stendur við þann kunna útsýnisstað Arnarstapa fyrir ofan Varmahlíð. Á því stendur að íbuar í Skagafirði munu ekki leyfa Blöndulínu 3. Mynd: PF.
Þetta mydarlega skilti stendur við þann kunna útsýnisstað Arnarstapa fyrir ofan Varmahlíð. Á því stendur að íbuar í Skagafirði munu ekki leyfa Blöndulínu 3. Mynd: PF.

Heimildamyndin Línudans, sem fjallar um baráttu íbúa Lýtingsstaðahrepps fyrir því að skoðað verði að leggja Blöndulínu 3 sem jarðstreng frekar en loftlínu um jarðir þeirra, var sýnd á RÚV sl. mánudagskvöld. Vakti myndin mikla athygli og í kjölfarið var Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets m.a. fenginn í viðtal í Kastljósi gærkvöldsins til að ræða um málið. 

Í myndinni er dregin upp neikvæð ímynd loftlínu sem mun hafa margfalda flutningsgetu rafmagns á við þá sem fyrir er. Möstrin verða munu hærri og stærri og mun hafa áhrif á ferðaþjónustuna og upplifun ferðamanna á ósnortinni náttúru eins og fram kemur í myndinni. Um tvær leiðir er að ræða með Blöndulínu 3 um Skagafjörð og ekki liggur fyrir ákvörðun um hvora leiðina eigi að fara.

Í matsskýrslu sem gerð var um áhrif fyrirhugaðrar háspennulínu á ferðaþjónustu og útivist á svæðinu kemur fram sú skoðun þeirra er starfa í þeim geira, að álykta megi að Blöndulína 3 muni grafa undan ferðaþjónustunni og útivistinni sem fer fram á og við legustæðið, og þaðan sem hún sést, fyrst og fremst vegna þess að hún gerir það svæði „ónáttúrulegt“, brýtur niður náttúrustemninguna, beinir athyglinni að „skemmdinni“ og minnir á iðnað eða stóriðju. Með þessa hugsjón vilja íbúar m.a. að strengurinn verði lagður í jörð svo ímynd landbúnaðarhéraðsins Skagafjarðar skaðist ekki.

Þann 28. apríl sl. tilkynnti Landsnet nýtt mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3. Markmiðið með þeirri framkvæmd er m.a. að skapa sátt um þau ferli sem tengjast uppbyggingu línunnar og var sú ákvörðun tekin í samráði við Skipulagsstofnun. Felur það m.a. í sér að Blöndulína 3 verði tekin af framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára til þess að tryggja nægan tíma til að undirbúa og framkvæma nýtt umhverfismat. Á vef Landsnets segir að það hafi verið gert með því að breyta forgangsröðun framkvæmda við styrkingu meginflutningskerfisins á Norðurlandi í kerfisáætlun Landsnets 2016-2025 sem send hefur verið til Orkustofnunar til samþykktar.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að breytt vinnulag sem miðar að því að ná verkefnum upp úr þeim átakafarvegi sem þau hafa verið í hafi verið innleitt.  „Liður í því er stofnun verkefnaráða og hagsmunaráða sem tryggja öllum hagsmunaaðilum aðkomu. Þannig viljum við tryggja virkt samtal, gagnkvæman skilning og betra upplýsingaflæði í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir,“ segir Guðmundur Ingi á heimasíðu Landsnets. „Með því að taka Blöndulínu 3 af framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára sköpum við  nægilegt svigrúm til þess að undirbúa nýja og vandaða málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í samræmi við okkar breyttu áherslur.“

Búið er að samþykkja staðsetningu Blöndulínu 3 sitthvoru megin Sveitarfélagsins Skagafjarðar, í Húnavatnshreppi í vestri og Akrahreppi í austri en verið er að vinna í því að setja línuna inn á aðalskipulag Svf. Skagafjarðar. Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs, segir að verið sé að setja staðsetningu Blöndulínu 3 inn en samkvæmt gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins var skipulagi á tveimur svæðum frestað vegna þess að ekki lá fyrir ákvörðun um hvora leiðina ætti að fara.

Stefán segir það ekki rétt sem komið hefur fram að Blöndulína 3 tengist ekki raforkukerfinu í Skagafirði. „Línan mun tengjast tengivirki í Varmahlíð sem tengist svo áfram m.a. í jarðstreng út á Sauðárkrók og þar með verður komið mun meira raforkuöryggi á svæðið. Við höfum verið að kalla eftir því að tengingin við Sauðárkrók verði efld og mun hún verða það með þessu. Þó er það þannig að tengingin inn á Sauðárkrók tengist Blöndulínu 3 ekki með beinum hætti. Línurnar verða þó tengdar og afhendingaröryggi aukið,“ segir Stefán Vagn.

Ljóst er að samkvæmt þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, fellur þetta tiltekna svæði ekki undir þá skilgreiningu þegar skylt er að leggja raflínur í jörð. Þær eru: Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis, línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi, ef línuleið er innan þjóðgarðs eða línuleið er innan friðlands sem verndað er af öðrum sökum en sérstaks landslags.

Aðspurður um það hvort Svf. Skagafjörður geti ekki krafist þess af Landsneti að línan liggi neðanjarðar, segir Stefán Vagn svo vera, en þá fellur sá aukakostnaður á sveitarfélagið  en ljóst er að sú aðgerð er mjög kostnaðarsöm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir