Söfnun til styrktar Jökli Mána

Þann 14. júlí sl. fæddist unga parinu Nökkva Má Víðissyni frá Kjarvalsstöðum í Hjaltadal og Önnu Baldvinu Vagnsdóttur frá Minni-Ökrum í Blönduhlíð sonur. Við fæðingu var drengurinn aðeins 1688 grömm eða tæplega sjö merkur, enda fæddur sjö vikum fyrir tímann. Barnið var tekið með bráðakeisaraskurði þar sem hreyfingar þess höfðu minnkað og það hætt að stækka auk þess sem lítið legvatn var eftir. Að fæðingunni lokinni tjáði barnalæknir þeim að þar hefði hver mínúta skipt máli og hefði verið beðið mikið lengur hefðu lífslíkur barnsins verið litlar.

Drengurinn, sem hefur hlotið nafnið Jökull Máni, er með Downs heilkenni en er auk þess með hjartagalla og þarf hann því að fara til Svíþjóðar í hjartaaðgerð. Til þess að mega fara í aðgerðina þarf hann að hafa náð fjögurra kílóa þyngd. Reiknað er með því að það geti tekið um það bil sex mánuði og þarf fjölskyldan að dvelja fyrir sunnan, á Vökudeild og síðan á Barnaspítala Hringsins, þangað til. Þess má geta að í gær, þegar Jökull Máni varð mánaðargamall, var hann orðinn 2.253 g.

Tvær vinkonur þeirra Nökkva Más og Önnu Baldvinu, þær Anna Guðrún Guðjónsdóttir og Sonja Finnsdóttir, hafa nú hrundið af stað söfnun fyrir fjölskylduna auk þess að stofna Facebooksíðuna Styrktarsíða Jökuls Mána. Reikningsnúmerið er 0115-05-063111 og er á nafni Önnu Baldvinu, kennitala 270198-3179. Að sögn Sonju hefur söfnunin fengið mjög góðar viðtökur og eru foreldrarnir afskaplega þakklátir öllum sem lagt hafa þeim lið. Þá hefur Þreksport ákveðið að gefa 1.000 krónur af hverju seldu líkamsræktarkorti út ágústmánuð til styrktar fjölskyldunni . Á laugardaginn kemur, þann 19. ágúst, ætlar svo Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir að hlaupa styrktarhlaup, 10 km leið frá Kálfsstöðum í Hjaltadal og fram að Reykjum. Hún hvetur alla til að slást í hópinn, ýmist hlaupandi, hjólandi eða gangandi, og leggja málefninu lið. Hverjum og einum er frjálst að velja þá vegalengd sem hann hleypur og einnig þá upphæð sem hann lætur af hendi rakna. Þátttakendur verða ferjaðir til baka að hlaupi loknu.

Nánari upplýsingar um hlaupið má nálgast á Facebooksíðunni Styrktarhlaup.

Fleiri fréttir