Það hressir, bætir og kætir að lesa ársuppgjör Aðdáendasíðu Kormáks

Sigurreifir leikmenn Kormáks/Hvatar að loknum síðasta leik í 3. deild í bili. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS
Sigurreifir leikmenn Kormáks/Hvatar að loknum síðasta leik í 3. deild í bili. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS

Lið Kormáks/Hvatar vann mikið og gott afrek í sumar þegar Húnvetningar stýrðu skútu sinni upp úr 3. deild og munu því þeysa um knattspyrnuvelli í 2. deild á nýju ári. Af þessu tilefni þótti aðstandendum hinnar rómuðu Aðdáendasíðu Kormáks tilefni til að hræra í gott og algjörlega óhlutlaust ársuppgjör.

Þar er farið yfir víðan völl og stiklað á stóru í öllum leikjum sumarsins. Í inngangi segir m.a.: „Liðið okkar, Kormákur Hvöt, byrjaði árið eins og oft áður með því að ná varla í lið á sparkvelli fyrstu mánuði ársins enda aðstaðan þannig að ekki er auðvelt að lokka menn á æfingar. Þó var farin ný leið þetta árið þegar hinum senegalspánska Ismael var sjippað á Blönduós á mótum þorra og góu, enda fremstur í skotmarkaröð þjálfarans Aco og mikið lá á að klófesta.“ Aco hætti þjálfun liðsins að loknum þremur erfiðum umferðum og Ingvi Ragn Ingvarsson tók við stýrinu og sigurganga Húnvetninga hófst. Það fór svo að liðið tryggði sér sæti í 2. deild eftir hressilegt sumar þar sem ýmislegt gekk á. Segir skemmtilega frá þessu í uppgjörinu.

Fram kemur að fá lið í 2. og 3. deildinni hafi teflt fram eins mörgum heimamönnum og Kormákur Hvöt gerði í sumar. „Það er sérstakt fagnaðarefni, þar sem tilgangur starfsins er að mynda vettvang fyrir þessa leikmenn. Kjarni heimamanna hefur haldist saman, þar sem gríðarleg leikreynsla er komin í hús hjá mönnum eins og Ingva, Hlyn Rikk, Sigga, Viktori, Benna og svo eigum við Gúddí alveg inni. Aco neitar að hætta að spila og Ísak Sigurjóns yngist bara með hverju árinu.

Við eigum fullt af yngri strákum sem hafa tekið risastór skref síðustu ár og sérstaklega í sumar og næsta holl bíður eftir að fá tækifæri. Okkar aðkomumenn koma og munu koma frá útlöndum, þar sem allt eins væri hægt að biðja unga menn af Höfuðborgarsvæðinu að flytjast til Lapplands yfir veturinn eins og fá þá norður í fótboltasumar. Það er af sem áður var.“

Hægt er að dýfa sér í ársuppgjörið með því að smella hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir