Veiðileyfi á Víðidalstunguheiði gagnrýnd
Stjórn Skotveiðifélags Íslands, Skotvís, hefur sent frá sér tilkynningu vegna umræðu sem fram hefur farið á Skotveiðispjallinu á Fésbókinni, en þar var gagnrýnt hvernig sveitarstjórn Húnaþings vestra fer með veiðileyfisveitingar m.a. á Víðidalstunguheiði. Málshefjandi, sem augljóslega ætlar á gæsaveiðar, segir að nú verði rukkað á heiðina eins og í rjúpunni, þrjár byssur á svæði og allir hundar bannaðir.
„... síðast en ekki síst á að rukka okkur um 9000 (eru menn gengnir af göblunum eða hvað ?) kr á byssu per dag + svo 2200 gisting. Fyrir okkur væri þetta sem sagt 33.600 fyrir utan annan kostnað,“ segir m.a. á skotveiðispjallinu. Margir hafa tjáð sig um málið og þá ekki síst vegna þess að um þjóðlendu er að ræða, alla vega að hluta til.
Tilkynning Skotviss er eftirfarandi:
Samkvæmt úrskurði Forsætisráðuneytis 11.10.2016 þá er óheimilt að selja veiðileyfi til fuglaveiða á þjóðlendum þrátt fyrir að þær séu í afréttareign eða í annarri óbeinni eign. Einnig er óheimilt að hindra för og eða rukka almenning fyrir að keyra þá vegi eða slóða sem liggja að viðkomandi þjóðlendum. En heimilt að er loka vegum/slóðum vegna aurbleytu eða annað og skal það yfir alla ganga sem þurfa um þann veg/slóða.
Með t.d. skála þá eru þeir eign upprekstrarfélaga og er þeim í sjálfvald sett hverjum þau leigja þrátt fyrir að viðkomandi skáli sé á miðri þjóðlendu. Í þessu tilviki er um að ræða Víðidalstunguheiði og skal þess getið að hún er að hluta eignalönd og annars vegar þjóðlenda.
Á vef óbyggðanefndar er að hægt að sjá nákvæman úrskurð um Víðidalstunguheiði og kort sem sýnir mörkin. Í dag vantar námkvæmari kort sem sýna GPS punkta þjóðlendna og eignalanda og hefur Skotvís hafið skoðun á því hvernig er hægt að bæta úr því fyrir veiðimenn.
Að þessu sögðu þá hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir íbúa sveitafélaga ef það er farið að takmarka afnot íbúa þess og eða rukka fyrir afnot á svæði sem hefur í áranna rás verið talinn réttur hvers og eins í að afla sér matar í íslenskri náttúru.
Hvað kemur næst á að banna berjatínslu í landi sveitafélagsins nema að fólk borgi fyrir það, þetta hlýtur vera sambærilegt og ef um skotveiðar er að ræða ef ekki þá er um grófa mismunun á hópi fólks ræða. En stjórn mun fylgjast með þessu máli.
Undir þetta ritar fyrir hönd stjórnar, Indriði Ragnar Grétarsson formaður Skotvís.
Síðasta haust felldi forsætisráðuneytið þann úrskurð að sveitarfélaginu Húnaþingi vestra, hafi verið óheimilt að gera rjúpnaveiðar á þjóðlendum, innan marka sveitarfélagsins, leyfisskylda gegn gjaldi. Skotveiðifélag Íslands fagnaði þeim úrskurði og taldi hann hafa fordæmisgildi. Sjá nánar HÉR.
Þrátt fyrir nokkra leit fann blaðamaður ekki reglur um gæsaveiðar á vef Húnaþings vestra og því síður um rjúpnaveiðar fyrir árið 2017.
HÉR er hins vegar hægt að sjá reglur um rjúpnaveiði 2016.