Á tjaldsvæði heima í íbúðahverfi? - Guðlaug K. Pálsdóttir skrifar

Í nýju aðalskipulagi Skagafjarðar 2020-2035, er verið að flytja tjaldstæði úr miðbæ Sauðárkróks inn á milli Sæmundarhlíðar og Sauðár. Í dag er þetta opið svæði, gönguleið sem börn og fullorðnir nota á hverjum degi þegar þeir fara í skóla eða vinnu. Þessi leið er örugg gönguleið fjarri umferð alla leið inn á lóð Árskóla og íþróttasvæði Tindastóls.

Með þessari breytingu er verið að skapa stór aukna hættu, skerða lífsgæði barna og fullorðinna á svæðinu. Að skipuleggja tjaldstæði á þessu svæði tel ég vera skammsýni og hvorki verið að huga að þörfum íbúa svæðisins eða tjaldsvæðisgesta til framtíðar.

Viljum við fá aukna umferð inn í íbúðahverfi?

Er ekki eitthvað rangt við þessa nálgun, árið 2023 er verið að beina aukinni umferð inn í íbúðahverfi? Umferðin felst ekki eingöngu í hefðbundnum farartækjum heldur bílum með tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi í eftirdragi sem vega allt að 2-5 tonnum. Eini möguleikinn er að umferðin fari inn í hverfið um Sauðárhlíð, gatnamót gerð á móts við Birkihlíð eða Víðihlíð. Ég tel einsýnt að gatnamót Sæmundarhlíðar og Sauðárhlíðar í núverandi mynd beri ekki umfram umferðarálag. Aðkoma að sjúkrahúsinu er um Sæmundarhlíð, bílar í forgangsakstri þurfa að eiga greiða og óhindraða leið um svæðið.

Það líka alveg augljóst að með tilkomu tjaldsvæðis þá er verið að auka áreitti inn í hverfið og að auki með tilkomu allt að 500 m² þjónustuhúsi á svæðinu þá er áhugavert að fá að vita hversu mörgum tjöldum, hjólhýsum og fellihýsum á að koma fyrir á svæðinu. Íbúar á Akureyri hafa löngum kvartað yfir tjaldstæðinu við Þórunnarstræti og nú er búið að loka því. Sú þróun er að eiga sér stað í flestum sveitfélögum að tjaldstæðum er fundin góður staður en ekki inn í miðri íbúðabyggð. Uppbygging ferðaþjónustu og aukin umferð ferðamanna á ekki að koma niður á félagslegum, náttúrulegum eða menningarlegum þáttum í samfélaginu. Við eigum að draga fram styrkleika okkar og efla svæðið, Sauðárkrókur hefur svo sannarlega margt fram að gefa bæði til íbúa og ferðamanna.

Sauðárkrókur er fallegur bær þar sem gott er að búa og njóta!

Það er nærtækara að gera svæðið að fallegu útivistasvæði með tengingu við Litla Skóg, það er dásamlegt að fara í gönguferðir um skóginn, nestisferð með fjölskyldunni, hlaupa eða hjóla um svæðið. Höldum því þannig og horfum til framtíðar í skipulaginu, byggjum upp gott tjaldsvæði á Nöfunum eða í jaðri þéttbýlisins. Það er þörf á því að byggja upp sterkan ferðamannastað á Sauðárkrók. Bærinn hefur upp á svo margt gott upp á að bjóða, ég er aðflutt og hef dregið marga vinahópa í Skagfjörð. Við höfum notið þess að stunda útivist og alls þess sem Sauðárkrókur hefur upp á að bjóða.

Byggjum upp ferðaþjónustu í sátt við íbúa og náttúruna. Hér má nálgast upplýsingar: 
https://www.skagafjordur.is/static/files/Skipulagsmal/2023/22630_a_sk_tjaldsv_saemundarhlid.pdf

Guðlaug K. Pálsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir