Hólanemar með sýnikennslu á Degi reiðmennskunnar

Nemendur Háskólans á Hólum sem tóku þátt í Degi reiðmennskunnar.
Nemendur Háskólans á Hólum sem tóku þátt í Degi reiðmennskunnar.

Þann 25. mars tóku þriðja árs nemendur hestafræðideildar Háskólans á Hólum þátt í Degi reiðmennskunnar hjá hestamannafélaginu Fáki í Víðidal í Reykjavík. Dagur reiðmennskunnar er árlegur viðburður, yfir daginn eru kennslusýningar með mörgum af okkar færustu tamningamönnum og sýnendum. Um kvöldið er svo stórsýning þar sem ungir sem aldnir knapar hestamannafélagsins Fáks sýna listir sínar.

Þriðja árs nemendur hestafræðideildar Háskólans á Hólum hafa nokkrum sinnum fengið tækifæri til að vera með sýnikennslu á Degi reiðmennskunnar. Sýnikennslan er hluti af verkefni í kennslufræðinni sem er fimmta og síðasta námskeiðið í BS námi í reiðmennsku og reiðkennslu. Mikill undirbúningur liggur að sýnikennslunni og eru nemendur strax á fyrsta ári byrjaðir að undirbúa sig í að koma fram og kynna hestafræðitengt efni.

Þegar lagt er af stað með hóp fólks og hesta í stórt verkefni eins og sýnikennsluverkefnið á Degi reiðmennskunnar þarf að huga að mörgu. Um er að ræða ferðalag suður til Reykjavíkur þar sem lagt er af stað frá Hólum á fimmtudegi og komið heim á sunnudegi. Alls tóku 14 nemendur þátt í sýnikennslunni og 14 hestar. Við undirbúninginn voru nemendurnir undir góðri handleiðslu hinnar færu hestakonu og reiðkennara, Mette Mannseth, sem sá til þess að leyfa nemendunum að gera sýnikennsluna sem mest að sínu. Verkefnum var útdeilt á nemendurna sem unnin voru undir stjórn framkvæmdastjóra sem var einnig einn af nemendunum. Dæmi um verkefni voru að útvega styrki, sjá um tæknimál, setja saman dagskrá, útbúa kynningar, útvega fóður sem og að redda hesthúsplássi, bílum og hestakerrum.

Ferðalagið hófst á fimmtudegi þar sem lagt var af stað frá Hólum með þrjár fullar hestakerrur og heyrúllu. Á leiðinni var komið við í Versluninni Eyri þar sem teknir voru með tveir pokar af Hnokka fóðurbæti. Einnig voru tekin tvö bretti af undirburði, annað frá Josera og hitt frá Furuflís. Þá var allt klárt og stefnan sett á Víðidalinn í Reykjavík.

Eftir 340 km og eitt sprungið dekk voru hestar og fólk komið á leiðarenda. Í Víðidalnum tóku á móti okkur indælisfólk sem fór með okkur í hesthúsin þar sem stíurnar voru klárar fyrir hrossin. Hrossin fengu tækifæri til þess að virða fyrir sér reiðhöllina þegar komið var í Víðidalinn og fóru svo sátt á stíurnar á eftir. Generalprufan fór fram á föstudeginum, degi fyrir sýninguna þar sem farið var í gegnum dagskrána með hestana og gekk hún vel.

Frá sýningu nemenda í Víðidalnum.

Á laugardeginum var Dagur reiðmennskunnar og nemendurnir frá Háskólanum á Hólum voru með fyrsta atriðið á dagskránni. Það mátti gera ráð fyrir fjöldanum öllum af fólki þar sem Dagur reiðmennskunnar er alltaf mjög vel sóttur. Stór hópur af dómurum frá Alþjóðasamtökum íslenska hestsins (FEIF) var mættur og þar sem kennslusýningin var hluti af endurmenntunarnámskeiði sem hestaíþróttadómarar alls staðar að úr heiminum voru mættir var ákveðið að hafa kennslusýninguna á ensku. Þrátt fyrir að kennslusýningin væri á ensku þá létu Íslendingar sig ekki vanta og var vel mætt á hana.

Það er mat manna að almenn ánægja var með hvernig til tókst með sýnikennsluna þar sem sýningin náði til fólks á öllum stigum hestamennskunnar. Viðfangsefnið var uppbygging reiðhests frá ósnertu tryppi að fullorðnum keppnishesti, eitthvað sem allir geta tengt við sem hafa áhuga á hestum.

Þegar undirbúningur að verkefninu hófst var okkur ljóst að þetta yrði kostnaðarsamt verkefni þar sem fara þurfti um langan veg með hross og fólk. Því var leitað til fyrirtækja eftir styrkjum sem tóku vel í að styrkja nemendurna í þetta mikilvæga verkefni. Sérstaklega voru fyrirtækin sem nemendur hafa verið að eiga í viðskiptum við jákvæð að styrkja verkefnið.

Það er jú þannig að í hestamennskunni koma margar hendur að einum hesti eins og dýralæknar og járningamenn. Einnig þurfa hestamenn að vera í stakk búnir að geta ferjað hrossin sín og þá þarf að hafa ökuréttindi til þess að keyra með hest í hestakerru. Margir nemendur sækja þessi réttindi til Ökuskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Eins og fram hefur komið þótti sýnikennslan takast afar vel og því töluvert verið rætt um að endurtaka leikinn og leyfa fleirum að njóta þess að sjá hana. Það hefur því verið ákveðið að halda sýnikennslu í reiðhöllinni Svaðastöðum þann 29. apríl nk. Skemmst er frá því að segja að þetta er stór helgi fyrir hestamenn í Skagafirði þar sem lokakvöld KS deildarinnar er 28. apríl og kvöldið eftir, þann 29. apríl, er reiðhallarsýningin Tekið til kostanna.

Að lokum langar þriðja árs nemendur Háskólans á Hólum að þakka bakhjörlum sínum stuðninginn:

Kaupfélag Skagfirðinga
Dýraspítali Glæsibæ
Steypustöð Skagafjarðar
Ökuskóli Norðurlands vestra
Dýralæknaþjónustan Varmahlíð
Esja Gæðafæði
Hesthólar ehf.
Icehooves
Leiknir Bílaklæðningar
Dýraspítalinn Lögmannshlíð Akureyri
Horseday

/Friðrik Þór Stefánsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir