Holóttir vegir – hol loforð

Holóttir þröngir malarvegir í rigningu og haustmyrkri eru stórhættulegir yfirferðar.  Þessu kynnist maður vel nú á ferðum um kjördæmið í aðdraganda enn einna kosninganna. Þessir holóttu vegir bera gott vitni um hinn hola hljóm sem hefur verið í loforðum fyrir hverja kosningu á síðustu árum og áratugum. Það skiptir víst litlu máli þótt kosningar sé haldnar árlega, jafnvel oftar. Vegirnir eru áfram holóttir og áfram hljóma hol kosningaloforð.

 

Tekjurnar týnast í fjárlögum

Þegar ég keyri þessa holóttu vegi verður mér hugsað til skólabarna sem ekið er með tugi kílómetra daglega um þessar illfærur, öryggi barnanna og aðbúnað. Sama á raunar við þegar ekið erum þá vegi kjördæmisins sem teljast í alfaraleið, og eru jafnvel hluti af þjóðvegi 1. Hinn sk. Vesturlandsvegum er mjór, allur í blindhæðum og ber engan veginn þá umferð sem honum ber – sérstaklega ekki eftir miklu aukningu erlendra ferðamanna. 2 + 1 vegur myndi bæta stórlega þar úr.

Það þarf engan sérfræðing til þess að sjá að það þarf stórátak í vegamálum kjördæmisins. Tekjustofnar og fjármunir eru fyrir hendi. Hið opinbera innheimtir ýmsa skatta af vegfarendum í gegnum álögur á eldsneyti, skatta á bifreiðar og svo framvegis. En þessar tekjur virðast týnast í fjárlögum, að minnsta kosti birtast þær ekki sem framlög til samgöngubóta. Það sáum við nú síðast í þeim fjárlögum sem lögð voru fram á Alþingi nú í haust. 

 

Týndar tekjur af Hvalfjarðargöngum

Gott dæmi af týndum tekjustofnum eru Hvalfjarðargöng. Frá því að göngin voru byggð hefur ríkið innheimt 3,2 milljarða í virðisaukaskatt ofan á veggjöldin – en í stað þess að renna  til vegarbóta á svæðinu hafa þessir peningar runnið til annarra útgjalda í fjárlögum. Og svo tala menn um ný veggjöld á leiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu – þangað sem íbúar kjördæmisins þurfa að sækja ýmsa þjónustu og jafnvel vinnu. Beinar tekjur sem ríkið hefur haft af Hvalfjarðargöngunum gætu svo vel farið í enduruppbyggingu og breikkun á þessum vegi. Þar eru miljarðar króna og ætti að skila áður til nábýlinga ganganna áður en talað er um ný veggjöld á þessari leið.

 

Héraðs- og sveitavegirnir kalla 

Vegleysurnar kalla um um Vatnsnesið, Húnavatnssýslurnar inn til dala,  Skagann um Skagafjörð og út á Reykjaströnd eða um Hegranesið, Borgarfjörð, Mýrar, Snæfellsnes, Skógarströnd,  Dali, Vestfirði og Strandir. Það dugar lítt að kjörnir fulltrúar bendi á hver á annan um "að ekki hafi fengist stuðningur við þessa eða hina framkvæmdina". Vinur minn, bóndi á Vatnsnesi kallaði mig  Vega - Bjarna. Mér þótti það hól. Það er rétt  að ég hef farið reglulega um alla þessa vegi kjördæmisins og þekki vel óskir fólksins, íbúanna og finn til með þeim í vegleysunum.  Svar mitt er, að ég treysti mér til og mun leggja mig allan fram í að bera fram óskir fólksins úr hinum dreifðu byggðum um bætt vegakerfi  og fylgja þeim eftir á Alþingi.

 

Bjarni Jónsson

Skipar 2. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir