Mig hefur alltaf langað til að verða bóndi :: Áskorandinn Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir Norðurhaga Húnabyggð

Yngstu bændur landsins Dagur Jónasson og Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir. Aðsend mynd.
Yngstu bændur landsins Dagur Jónasson og Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir. Aðsend mynd.

Þegar Jón Kristófer hafði samband og spurði mig hvort ég gæti tekið við áskoranda pennanum þá gat ég auðvitað ekki sagt nei, eins og vanalega þegar ég er spurð að einhverju. Ég hins vegar vissi ekkert hvað ég átti að skrifa um en lét til skara skríða.

Nú um áramótin keyptum við kærastinn minn, Dagur Freyr, jörðina og búið, Norðurhaga af foreldrum mínum. Við stundum hér búskap með rúmlega 500 kindum ásamt hrossum. Að taka við jörð svona ung er krefjandi en mjög skemmtilegt og það hlýjar manni mikið að vera vel tekin af samfélaginu hér. Ég stunda búfræðinám í LBHÍ ásamt því að vera eins mikið við búskapinn og mögulegt er.

Ég stundaði nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri en fann mig aldrei í samfélagi borgarinnar. Eina sem sá skóli gaf mér var Dagur, sem stundaði þar húsasmíðanám, og er ég ævinlega þakklát fyrir það. Hann var nú samt alls ekki vanur sveitavinnu þar sem hann kom frá Akureyri, en lærðist þetta fljótt og líkaði honum vel. Svo tók covid yfir líf allra og fór ég í fjarnám eins og flestir aðrir. Mér fannst svo skemmtilegt í fjarnáminu að ég ákvað að skrá mig bara í fjarnám og stundaði það ásamt fullri vinnu bæði í sveitinni og utan hennar.

Að fara úr svona litlum skóla eins og í mínu tilfelli úr Húnavallaskóla, í stóran skóla eins og VMA og LBHÍ er risa stökk. Í bekknum mínum á Hvanneyri erum við jafn mörg og allur skólinn á Húnavöllum var þegar ég útskrifaðist þaðan. Ekki það að það er mjög skemmtilegt á Hvanneyri og ég hef lært mismikið af misgáfulegum hlutum þar. Samfélagið á Hvanneyri er vel haldið ungum, og vonandi, framtíðar bændum. Hér með skora ég á stórbóndann og frænku mína Önnu Margréti Jónsdóttur á Sölvabakka að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir