Smábæjar batterí

Ég þakka Herdísi hans Ævars fyrir áskorunina. Tek þessu fagnandi. Ég er búinn að eyða svolitlum tíma í hugsa hvað í fjandanum ég ætti að skrifa. Fór að pæla í að kvarta undan afleiðingum yfir gengi krónunnar eða hvernig „smærri“ sauðfjárbændur gætu haft það á næsta ári. Alltaf sama tuggan og þetta helvítis fo**ing fok*!

En ég er ekki bóndi enn. Ég snéri þessu alveg á hinn bóginn. Sópaði þessu tuði undir teppið og skrifa um hvað það er frábært að vera hluti af „smábæjar batterí“, mér finnst það geggjað. Smátt samfélag, allir þekkja alla. Ekkert mál að spyrja næsta mann út í sínar pælingar. Allir hjálpa manni með opnum örmum. Þægileg stemming í kringum mann, ekkert stress í umferðinni og öll grunnaðstoð að fá. Fólk í smáum samfélögum eru samstæðari en því sem gengur og gerist í þeim stærri. En svo eru svartir sauðir sumstaðar, en maður lætur aldrei neinn sauð í „smábæjar batterí“ stoppa sig. Við í mínu fallega sveitarfélagi, höfum öflugan landbúnað, öflugt kaupfélag, svaðalegt blak-, fótbolta- og körfuboltalið.

Allt er hægt að manna þó smátt sé. Eigum hinsvegar við smá húsnæðisvanda að stríða í okkar frábæra „smábæja batteríi“, hef heyrt að við séum ekki ein á báti með það vandmál. En fólk vill greinilega búa hér, það er ljóst. Hvort sem það eru bændur eða hinn klassíski íbúi. Sem annað hvort vinnur fyrir kaupfélagið, fæðingarorlofssjóðinn eða sveitarfélagið. En ég sem íbúi í þessu batteríi, myndi ekki sjá mína framtíð í stórum þéttbýliskjarna. Nema háskóla vegna. Mögulega af því að ég þekki ekki annað eða þetta lið fyrir sunnan borðar ekki nóg af lambakjöti, folaldasteik eða drekkur ekki nóg af kaffi. En meðan þau hafa Hagkaup, Bónus og COSTCO. Þá er ég með mitt lambakjöt, mitt kaupfélag, minn fæðingarorlofssjóð og mitt sveitarfélag! Alltaf er hægt að breyta og bæta. En hér eru allir svo íhaldssamir að Vatnsnesvegurinn verður áfram í sínu „fanta“ formi. Túristinn er aukandi hér í héraði, koma þá margir ökuhæfir og óökuhæfir hingað yfir heiðar.

En við verðum bara að þola það í bili. Lengi sem hann kaupir ullina, fer á bak, smakkar íslenzkt lambakjöt, fær sér léttbjór því hann skilur ekki af hverju bjór er ekki seldur í matvörubúð. Þá geta flestir jánkað við ökulagi hans. Ég set samt gæsalappir utan um þetta. Ég kann vel við túristann svo lengi sem hann er ekki yfir sjötugt og er franskur. En ég hefði alveg viljað sofa í húsi eldri frakka. Jafnvel á bedda með Birni Steinbekk og frakkanum sjálfum ef ég hefði fengið að fara á EM í Frakklandi með nóg af miðum. Nóg af því, maður kemst stutt  á fölskum vonum. En eftir seinustu tíðindi af þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, sel ég miðann minn í dalinn og Herjólfsferðin fylgir. Annars bý ég á Hvammstanga í Húnaþingi vestra ef það fór framhjá þér lesandi góður.

 

Ég ætla að skora á kollega minn í viðburðar bransanum Sigurvald Ívar Helgason.

Þakka fyrir mig!

Áður birst í 25. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir