Sturluhátíðin verður 15. júlí

Frá síðustu Sturluhátíð. Mynd: Aðsend
Frá síðustu Sturluhátíð. Mynd: Aðsend

Nú er að koma að því. Hin árlega Sturluhátíð, sem kennd er við sagnaritarann mikla, Sturlu Þórðarsonar, verður haldinn 15. júlí nk.

Hátíðin hefst kl. 13 að Staðarhóli í Saurbæ í Dölum, bæ Sturlu Þorðarsonar, með því að við afhjúpum söguskilti sem Sturlufélagið hefur látið gera. Mjög hefur verið vandað til þessarar framkvæmdar. Sérfrótt fólk hefur ritað texta á skiltin og eru þeir bæði á íslensku og ensku. Listamenn myndskreyttu, myndirnar unnar af mikilli kúnst og var þess gætt að útlitið væri í samræmi við söguskilti sem sett hafa verið upp á þekktum sögustöðum í Dalasýslu.

Að lokinni afhjúpun skiltanna verður farið í stutta sögugöngu með sérfróðu leiðsögufólki um Staðarhólinn. Þar verður í senn sagt frá fornleifauppgreftri sem þar hefur staðið yfir og varpað ljósi á sögu þessa merka staðar.

Hátíðinni verður síðan fram haldið á Hótel Laugum í Sælingsdal kl. 15 með eftirfarandi dagskrá:

  1. Einar K. Guðfinnsson formaður Sturlufélagsins, setur hátíðina.
  2. Ármann Jakobsson, prófessor: Hverjum augum leit Sturla Þórðarson, vígið á Snorra Sturlusyni?
  3. Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur: Völvur og væringjar
  4. Torfi Tulinius prófessor: Sturla og sálin. Sýn Sturlu á mannssálina eins og hún birtist í verkum hans.

Soffía Meldal ung söngkona úr Dölunum, flytur löng á milli dagskráratriða.

Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og einnig býður Sturlufélagið upp á kaffiveitingar að vanda.

Það er ástæða til að hvetja sem flesta til að koma. Í fyrra var metaðsókn að hátíðinni og mættu um 140 manns. Sturlunga og ævi og verk Sturlu Þórarsonar sagnaritara, eins helsta höfðingja og geranda á Sturlungaöldinni, lifir nefnilega í hugum ótrúlega margra nútímamanna.

Sturlungaöldin er einstæður tími í sögu okkar. Í senn tími ófriðar og mannskæðra bardaga sem ekki verður jafnað til neins annars í sögu okkar. En Sturlungaöldin var líka tími óviðjananlegra sagna og bókmennta og nægir í því sambandi að nefna afrek þeirra frændanna Snorra Sturlusonar og Sturlu Þórðarsonar.

Við í Sturlunefndinni bjóðum ykkur öll velkomin og hlökkum til að sjá ykkur sem flest laugardaginn 15. júlí á Staðarhóli, Saurbæ í Dölum og á Laugum á Sælingsdal.

 

Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Sturlufélagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir