Sumargestir á bökkum Sauðár - Aðsent Hörður Ingimars

16. júní 2023. Tómas Ingi og Helga Björk Davíðsbörn. Mynd: Hing.
16. júní 2023. Tómas Ingi og Helga Björk Davíðsbörn. Mynd: Hing.

Þeir leynast víða „leynistaðirnir“ við Sauðána þó öllum séu aðgengilegir. Svo litfagrir að staldra verður við og njóta Guðsgjafanna. Á heitasta degi sumarsins 16. júní í 24 gráðum teyga sóleyjarnar sólarljósið og lúpínan sperrir sig sem mest hún má umlukin iðjagrænu grasinu og sumargestirnir njóta stundarinnar.

Sauðáin hefur verið kynslóðunum uppspretta leikja og gleði allt frá því að byggð við ána varð að þéttbýli. Skautasvell á Flæðunum þar sem að nú er tjaldsvæði norðan sundlaugarinnar og stórfelldar hornsílaveiðar á sumrum fóru fram á sama svæði. Litlu norðar stundaðar „síldveiðar“ og gert út frá trésmíðaverkstæði Jóseps Stef. þar sem voru litlar bryggjur.

Veiðitækin baukar sem fönguðu stundum silungstitti sem töldust til stórveiða. Áin rann áður fyrr rétt vestan Bifrastar og samsíða gamla Læknisgarðinum og um síðir til sjávar um Djúpós. Áhlaup miðsvetrar og vorflóð áttu það til að fylla Græna salinn í Bifröst sem kallaði á alla verkfæra menn með dælur að hreinsa allt sullið. Sauðáin var svipt frelsi sínu, beisluð og sett í nýjan farveg. Nú rennur áin úr Sauðárgilinu suðaustur með Sauðárhæðinni og tekur níutíu gráðu horn og síðan stefnuna austur milli „Hvítahússins“ og leikskólans Ársala um skurð til Tjarnar-Tjarnar.

Litlu norðan tjarnarinnar er hesthúsahverfið og reiðhöllin Svaðastaðir. Á norðurbakka tjarnarinnar var eitt sinn húsmannsbýlið Tjörn. Í upphafi síðustu aldar bjó þar um stundir tengdasonur Jónasar í Hróarsdal, sagnaskáldið Theódór Friðriksson sem samdi meistaraverkið „Í verum“ sem ætti að vera hverjum Skagfirðingi skyldulesning og fleira fólki. Sauðáin er nú týnd í Tjarnar-Tjörn.

/Hörður Ingimarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir