Þegar lítill hundur lagði af stað í leiðangur…

Snúður.MYND AÐSEND
Snúður.MYND AÐSEND

Það að meðalstór íslenskur fjárhundur gæti troðið sér í gegnum kattarlúgu taldi ég vera líffræðilega ómögulegt. En “þar sem hausinn kemst…” segir hún mamma mín og hefur nú ævinlega rétt fyrir sér. Þannig hófst ferðalag Snúðs frá Smáragrundinni á Sauðárkrók að morgni til í mildu veðri. Fljótlega uppgötvaðist að hundurinn væri horfinn og að hann myndi líklega ekki rata til baka, enda ekki lengi átt lögheimili á Smáragrundinni þó tveggja ára væri. En svona loðboltar eru sennilega fljótari að eignast stað í hjarta heimilismanna en að kortleggja nágrenni sitt. Áhyggjurnar okkar fjölskyldunnar voru miklar, það var mikið leitað og óskaplega erfitt að leggjast á koddann tvö kvöld í röð án þess að vita um afdrif Snúðs.

En það sem við þó vissum fyrir er hve afskaplega fallegt og samheldið samfélagið okkar í Skagafirði er. Kona reiknar þó ekkert endilega með því að einn lítill hundur snerti nokkra aðra en heimilismeðlimi, en með hvarfi sínu hrærði hvutti í fleiri hjörtum en bara okkar. Myndum af týndum Snúð var deilt í hundraða vís á samfélagsmiðlum, óvenjulega margir voru á vappi utandyra eftir vinnu og áttu það sameiginlegt að svipast um í umhverfinu í stað þess að horfa niður á tær sér. Mildi var að ekki urðu umferðarslys á vegum þegar bílstjórar gaumgæfðu umhverfi hliðarglugga mun betur en það sem framundan var á veginum. Sumir gengu um með hundanammi í vasanum þó engan hund ættu, bara svona til öryggis ef hann Snúður yrði á vegi þeirra. Bílstjórar flutningabíla voru á leitarvaktinni og björgunarsveitin Grettir var í startholum með drónaleit svo eitthvað sé nefnt. Batteríið í símanum mínum tæmist ítrekað vegna fjölda skilaboða og Facebook bannaði mér að setja fleiri hjörtu við hlýjar kveðjur því einhvers konar hámarki sem ég vissi ekki að væri til hafði víst verið náð. Takk öll svo hjartanlega fyrir þennan samhug og umhyggju <3

Það var dásamlegt að vakna við símtal eldsnemma morguns sem byrjaði á “kannast þú við hundinn Snúð?” og var gamla ekki lengi að hendast út og af stað. Snúður hafði leitað heim á bæ fyrir ofan Sauðárkrók þar sem sennilega einn af fáum sem ekki hafði séð auglýst eftir honum býr. Sláturbiti dugði til að sjá símanúmerið mitt á merkinu hans en svo var Snúður horfinn í myrkrið. Hann kom þó í loftköstum þegar hann heyrði kunnuglega rödd og þá brustu allar varnir hjá vansvefta og áhyggjufullum hundaeiganda, sem bókstaflega horgrenjaði af hamingju í fanginu á ókunnugum manni áður en morgunskíman lét sjá sig. Og það voru aldeilis ekki fyrstu tárin á þessum tveimur löngu dögum, því þau höfðu fallið nokkuð mörg yfir fegurð samfélagsins okkar, yfir umhyggjunni sem svo ótal ótal margir sýndu með því að hjálpa okkur að leita að hvutta og hafa samband vegna hans. Í hversdagsleikanum er nefnilega svo auðvelt að gleyma kostum samfélagsins okkar og festast frekar á neikvæðu nótununum, að allt væri nú betra bara ef þetta og bara ef hitt. En á öðrum stundum, eins og þegar lítill hundur leggur af stað í leiðangur sem hann ræður ekki við, þá er maður sannarlega minntur á þau einstöku gæði sem það eru að búa í þessu samheldna samfélagi, þar sem engum er sama um náungann og samstaðan er algjör þegar á reynir. Það er ómetanlegt og alls ekki sjálfgefið. Ég var rétt sest niður með þreyttum Snúð eftir slarkið þegar ég sá á samfélagsmiðlum að hinn einstaki Árni og hans góða gengi á Hard Wok lætur allan ágóða af hamborgarasölu kvöldsins renna þangað sem þessa dýrmæta samhugar er þörf. Fáum okkur því hamborgara í kvöld og höldum okkar fallega samfélagi gangandi áfram á þeim kærleika og umhyggju sem einkennir það svo vel.

Með ást og þakklæti frá hamingjusömum hundaeiganda.

Álfhildur Leifs

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir