Vinnubrögð sem nýja Ísland vill ekki

Valdimar Guðmannsson.
Valdimar Guðmannsson.

Fimmtudaginn 14 júlí s.l. undirritaði ég  blað sem eigandi jarðarinnar Bakkakot í Blönduósbæ. Ég er ekki stoltur af þessari undirskrift, en með henni samþykkti ég að lagður yrði nýr strengur fyrir ljósleiðara gegnum land Bakkakots,ekki vegna þess að ég sjái eftir landinu fyrir strenginn, heldur sem skattgreiðandi til ríkisins og Blönduósbæjar.

Þannig að leggja á nýjan streng fyrir ljósleiðara í gegnum landið þrátt fyrir að slíkur strengur  hafi verið lagður þar í gegn um leið og hitaveitulögn til Skagastrandar var gerð af Rarik, fyrir  um 3 árum síðan ásamt því að leggja heimtaug fyrir ljósleiðarann inn í íbúðarhúsið ca 100 m.

Það er mér með öllu óskiljanlegt af hverju ekki má nota strenginn sem fyrir er í hitaveituskurðinum. Tvær ástæður hafa verið gefnar upp af sveitarfélaginu, önnur er að leigan á þeim streng sem er til staðar sé svo dýr að það borgi sig fyrir sveitarfélagið að kaupa og leggja nýjan streng, hin ástæðan sem gefin er upp er að styrkurinn frá ríkinu falli niður ef sveitarfélagið eigi ekki strenginn sjálft. Þetta kemur sérkennilega fyrir sjónir að mínu mati, þar sem ríkið á lögnina sem nú þegar er til staðar með eign sinni á Rarik ohf.

Með þessari framkvæmd finnst mér mjög illa farið með skattpeningana okkar bæði hjá ríki og sveitarfélaginu að láta tvo samskonar strengi liggja hlið við hlið og bara annar notaður, betra væri að koma þessum nýja strengnum í jörðu þar sem meiri þörf er á.

Ástæðan fyrir að ég skrifaði undir er bara sú að ég vildi ekki spilla fyrir fólki á þessu svæði að fá þessa þjónustu. Ef við horfum á þörfina á þessari þjónustu um landið þá er erfitt að skilja þessa ráðstöfun með þá fjármuni sem ætlaðir eru frá ríkinu til að flýta ljósleiðarvæðingu um allt land. 

Í fundargerð byggðaráðs Blönduós, frá 14. júlí s.l. var bókun frá Herði Ríkharðssyni þar sem hann skorði á alla aðila að reyna að komast hjá því að þarna yrðu tveir strengir hlið við hlið. Ég vona að fleiri komist að sömu niðurstöðu og Hörður og hætt verði við þessa mislukkuðu framkvæmd og strengurinn sem lagður var um leið og hitaveitulögnin var gerð verði notaður eins og allir gengu út frá.

Valdimar Guðmannsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir