Átta milljónir í styrk til Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar

Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum hlaut nýlega átta milljóna króna styrk úr Innviðasjóði Rannís til uppsetningar á Miðstöð fyrir mælingar á efnaskiptahraða í fiskum. Verður styrknum varið til kaupa á tækjum og uppbyggingar á aðstöðu til mælinga á efnaskiptahraða fiska.

Á heimasíðu Versins segir að aðstaðan muni opna nýja möguleika á rannsóknum á sviði lífeðlisfræði, vistfræði, atferlisfræði og fiskeldis. Til standi að kaupa tæki til mælinga á efnaskiptahraða fiska allt frá hrognastigi til kynþroska fiska sem notuð verði til að mæla efnaskiptahraða í einstökum hrognum, seiðum og fullvöxnum fiskum. Einnig verði hægt að mæla vöxt, fóðurtöku og efnaskiptahraða fiska í kerjum og fá þannig fullkomna mynd af orkubúskap þeirra. Búnaður til þess að mæla sundgetu fiska er nú þegar til staðar. Gert er ráð fyrir að aðstaðan verði komin í fulla notkun næsta haust.

Það var Helgi Thorarensen sem var aðalumsækjandi að styrknum en með honum sóttu um þau Stefán Óli Steingrímsson, Bjarni K. Kristjánsson og Camille Leblanc frá Hólum og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir frá Háskólasetri Vestfjarða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir