Foráttuveður í aðsigi

Vindaspá kl. 18:00 í dag.
Vindaspá kl. 18:00 í dag.

Búist er við foráttuveðri um land allt í dag og er nú þegar farið að hvessa á sunnanverðu landinu. Spár gera ráð fyrir vaxandi suðaustanátt með snjókomu og síðar rigningu um landið suðvestanvert og stormi eða roki (20-28 m/s) víða síðdegis. Veðrið ætti að ná hámarki fljótlega eftir hádegi suðvestanlands en seinnipartinn í öðrum landshlutum. Milli kl. 16 og 17 er reiknað með að fari að lægja og draga úr vætu, fyrst á Reykjanesi og fljótlega eftir miðnætti muni skilin ganga norðaustur af landinu. 
Í nótt og á morgun verður kominn vestlæg átt, víða 8-15 m/s með éljum um landið sunnan og vestanvert, en hvassara á stöku stað seint í nótt og í fyrramálið. Annað kvöld og aðfararnótt sunnudags gæti snjóað nokkuð samfellt úr smáskilum á Suður- og Vesturlandi, en styttir upp að mestu um morguninn og munu þá skilin ganga norður yfir landið með snjókomu nokkuð víða.
Vegagerðin gerir ráð fyrir að loka þurfi vegum um land allt og er fólk hvatt til að kynna sér aðstæður á vegum áður en haldið er af stað í ferðalag á vef Vegagerðarinnar: http://www.vegagerdin.is/ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir