Ferðamálafréttir af Norðurlandi vestra

Selasetur Íslands á Hvammstanga. Mynd:KSE
Selasetur Íslands á Hvammstanga. Mynd:KSE

Davíð Jóhannsson, ráðgjafi á sviði ferðamála hjá SSNV, hafði samband og óskaði eftir að eftirfarandi upplýsingum yrði komið á framfæri:

Nám í svæðisleiðsögn 2017    
Námið í svæðisleiðsögn hófst 23. janúar s.l. og stunda það 10 nemendur af öllu Norðurlandi vestra.  Þetta er góður hópur af áhugasömum nemendum, sem eiga eftir að standa sig vel í þessu og verða góð viðbót við fagmennsku í ferðaþjónustu svæðisins.

Sannir landvættir – kynningarfundur 21. febrúar kl. 16:00 á Blönduósi
Sannir Landvættir ehf. var stofnað af Bergrisa og Verkís. Markmiðið með stofnun félagsins er stuðla að uppbyggingu á ferðamannastöðum um land allt í samvinnu við landeigendur, sveitarfélög og ríki. Sannir Landvættir bjóða upp á allan undirbúning, hönnun, fjármögnun og framkvæmdir við uppbyggingu ferðamannastaða af öllum stærðum sem og rekstur þeirra til framtíðar ef svo ber undir. Sannir Landvættir bjóðast til að taka að sér verkefni allt frá undirbúningi breytinga á aðalskipulagi svæða til framkvæmda við gerð t.d. bílastæða, salernisaðstöðu, göngustíga, útsýnispalla, starfsmannaaðstöðu og annað það sem þurfa þykir á hverjum stað.  Vefsíða
Þetta er kjörið tækifæri fyrir fulltrúa sveitarfélaga, landeigendur og ferðaþjónustuaðila að kynnast þessu nýja módeli.
Fundurinn hefst kl. 16 í Eyvindarstofu á Blönduósi 

Sala og þjónusta fyrir stjórnendur – NÁMSKEIÐ  25. febrúar kl. 9:30—16:30 á Blönduósi 
Hverjir eru viðskiptavinir mínir? Grunnþættir í þjónustu. Væntingar viðskiptavina. Orðspor og áskoranir í að viðhalda viðskiptatengslum.  Farið verður í gegnum ferli frá því að greina þarfir væntanlegra viðskiptavina að því að skapa orðspor sem viðheldur viðskiptum. Notast er við aðferðafræði markþjálfunar á námskeiðinu en sú aðferðafræði eykur líkur á yfirfærslu þess sem lært er á störf.  Leiðbeinandi: Lára  Óskarsdóttir ACC Markþjálfari frá Opna Háskólanum í Reykjavík.
Stjórnendur í ferðaþjónustu eru einkum hvattir til þátttöku á þessu námskeiði.
Sjá nánar:  http://farskolinn.is/namskeid/ns/faersla/sala-og-thjonusta-hverjir-eru-vidskiptavinir-minir/
Að auki er vert að benda á þjónustunámskeið fyrir almennt starfsfólk í vor:
http://farskolinn.is/namskeid/ns/faersla/thjonustunamskeid-vid-erum-her-fyrir-thig-1/  

Arctic Coastline Route – kynningarfundir 28. febrúar á Skagaströnd og Hvammstanga
Þriðjudaginn 28. febrúar er boðið til kynningarfundar um ferðamannaveginn "Arctic Coastline Route".
Fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu og annað áhugafólk er hvatt til að mæta á fundinn!
Ferðamannavegurinn liggur að mestu meðfram strandlengju Norðurlands og er tilgangurinn að þróa nýtt aðdráttarafl fyrir norðurhluta Íslands.  Verkefnið hófst árið 2016 og er tilgangur fundarins að gefa innsýn inn í markmið, áherslur og fyrstu skref.  Tækifæri gefst til umræðna og áhrifa á verkefnið og er m.a. leitað hugmynda um endanlegt nafn leiðarinnar.
Verkefnastjóri Arctic Coastline Route er Christiane Stadler. Mun hún kynna verkefnið og fer fundurinn fram á ensku.
Fundarstaðir:   Skagaströnd kl. 13-14:30 - Kaupfélagshúsið (Einbúastíg 2)
                           Hvammstangi kl. 16:30-18 - Selasetrið
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku hér 

Ferðamáladagur Norðurlands vestra að vori er fyrirhugaður 11. maí n.k. – takið daginn frá!
Eftir ágætlega heppnaðan ferðamáladag í nóvember s.l. er stefnt að því að vera með slíkan viðburð tvisvar á ári vor og haust. Á þessum vordegi er stefnt að því að auk stuttrar fagdagskrár í formi fyrirlestra og/eða umræðna verði í fyrsta sinn vettvangur allra ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi vestra til að kynna starfsemi sína hver fyrir öðrum, líkt og gert hefur verið á hverju svæði fyrri sig undanfarin ár.   Endanleg dagskrá, staður og stund verða kynnt tímanlega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir