Hagnaður ársins 2023 hjá KS var 5,5 milljarðar króna

Frá aðalfundi KS. Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri, Guðni Ágústsson og Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS.    Mynd AÐSEND
Frá aðalfundi KS. Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri, Guðni Ágústsson og Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS. Mynd AÐSEND

Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga var haldinn í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð þriðjudaginn 23. apríl. Á áttunda tug manna sátu fundinn en kjörnir fulltrúar voru eitthvað á sjötta tuginn auk starfsmanna og gesta. Ekki lágu stórar ákvarðanir fyrir fundinum en fram kom að KS skilaði 5,5 milljarða króna hagnaði árið 2023 en eignir kaupfélagsins voru bókfærðar á 88,6 milljarða í árslok 2023 og eigið fé nam 58,6 milljörðum.

Í frétt á vef Viðskiptablaðsins kemur fram að tekjur KS-samstæðunnar jukust um 4% milli ára og námu 52,6 milljörðum króna á árinu 2023. Rekstrargjöld jukust um 3,7% og námu 44,3 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 4,1% milli ára og nam 8,4 milljörðum.

Ársverk hjá kaupfélaginu sjálfu voru 180 en hjá samstæðunni í heild voru 958 ársverk í fyrra.

Athygli vekur að hagnaður milli ára jókst um 3,8 milljarða en hagnaður KS árið 2022 var um 1,7 milljarðar króna. „Stærsta ástæðan [...] er að gerð var leiðrétting á þýðingarmun í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum (VSV), sem KS á 32,9% hlut í. Það hafði þau áhrif að eignarhluturinn hækkaði um tæplega 1,8 milljarða að virði. Bókfært verð þriðjungshlutar KS í Vinnslustöðinni hækkaði um þrjá milljarða, úr 10,8 í 13,8 milljarða á milli ára. Þá hafði veruleg lækkun á hlutabréfaverði Iceland Seafood Inter-national árið 2022 neikvæð áhrif á rekstrarreikning KS það árið upp á 2,4 milljarða króna,“ segir í frétt vb.is.

Ásta Pálmadóttir ný inn í stjórn KS

Stjórn KS er kjörin til þriggja ára í senn og var að þessu sinni kosið um tvo, Þorleif Hólmsteinsson frá Þorleifsstöðum og Guðrúnu Sighvats-dóttur frá Sauðárkróki. Var Þorleifur endurkjörinn í stjörn en þar sem Guðrún gaf ekki kost á sér áfram var Ásta Pálmadóttir kjörin í hennar stað. Eftir sem áður er Bjarni Maronsson stjórnarformaður KS en aðrir stjórnar-menn, auk Þorleifs og Ástu, eru Herdís Á. Sæmundardóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Atli Már Traustason og Hjörtur Geirmundsson.

Þá voru kosnir þrír varamenn í stjórn til eins árs; það voru Ingi Björn Árnason á Marbæli, Viggó Jónsson Sauðárkróki og Guðrún Lárusdóttir frá Keldudal.

Samkvæmt upplýsingum Feykis hélt Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri þrumuræðu á fundinum og blés sínu fólki byr í brjóst. Þá má geta þess að Guðni Ágústsson flutti sömuleiðis ræðu, sló vitaskuld á létta strengi eins og honum er lagið, en hann var á fundinum sæmdur gullmerki KS. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir